Total Recall endurgerð

Arnold Schwarzenegger lék aðalhlutverkið í Total Recall.
Arnold Schwarzenegger lék aðalhlutverkið í Total Recall.

Til stendur að endurgera vísindaspennutryllinn Total Recall, sem er frá árinu 1990 og með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Þetta kemur fram í kvikmyndatímaritinu The Hollywood Reporter.

Þar kemur fram að Kurt Wimmer, sem skrifaði handritið að The Thomas Crown Affair árið 1999, muni skrifa handritið að endurgerðinni.

Columbia Pictures, sem tryggði sér kvikmyndaréttinn í febrúar sl., segir að endurgerðin verði uppfærð og nútímavædd.

Ekki hefur verið greint frá því hver muni leika aðalhlutverkið.

Fyrri myndin byggir á We Can Remember It for You Wholesale, eftir Philip K. Dick. Hún fjallar um mann sem dreymir í sífellu um ferðalag til Mars, sem hann hefur aldrei heimsótt, og konu sem hann hefur aldrei hitt.

Myndin, sem er frá framleiðendum Alien, þykir í dag költ-klassík.

Auk Schwarzeneggers léku þær Sharon Stone og Rachel Ticotin í gömlu myndinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina