Ásdísi Rán hent út af Facebook

Ásdís Rán á forsíðu tímaritsins Max í Búlgaríu, þar sem ...
Ásdís Rán á forsíðu tímaritsins Max í Búlgaríu, þar sem hún er búsett. mbl.is

Svo virðist sem stjórnendur Facebook hafi af einhverjum ástæðum ákveðið að henda fyrirsætunni sívinsælu Ásdísi Rán út af vefnum. Ásdís finnst alltént ekki þar lengur og kvartar eiginmaður hennar, fótboltakappinn Garðar Gunnlaugsson, yfir því á sinni Facebook síðu að mikil vinna Ásdísar við að byggja upp tengslanet og koma sér á framfæri á samskiptavefnum sé nú farin í súginn.

Ásdís er ekki fyrsti Íslendingurinn sem Facebook lokar á því Ragnheiður Elín Clausen lenti í því í tvígang að vera hent þaðan út. Virðist vera nóg að ákveðir margir Facebook notendur taki sig saman um að kvarta undan öðrum notenda til að stjórnendur Facebook loki reikningnum án frekari athugunar. Ekki er vitað með vissu hvað varð til þess að Ásdís Rán er ekki lengur velkomin á Facebook en hún birti þar reglulegar tilkynningar úr eigin lífi auk fjölda mynda. Aðdáendur Ásdísar geta þó huggað sig við að á Facebook má enn finna 2 aðdáendasíður til heiðurs Ásdísi Rán, svo stjórnendur Facebook virðast þó ekki vera alfarið á móti ísdrottningunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina