Hvernig Elin komst að ótryggð Tigers

Hjónin Elin Nordegren og Tiger Woods árið 2008.
Hjónin Elin Nordegren og Tiger Woods árið 2008. Reuters

Lítið er vitað hvað þau hjónin Tiger Woods og Elin Nordegreen hafa aðhafst á nýja árini. Bandarískir fjölmiðlar hafa því einbeitt sér að því að rannsaka aðdraganda þess að Woods lenti í bílslysi utan við heimili sitt 27. nóvember. Vefmiðillinn Daily Beast, sem sérhæfir sig í fréttum af fræga fólkinu, segist nú vera búinn að raða saman atburðarásinni þegar Nordegren uppgötvaði að eiginmaður hennar var ekki allur þar sem hann var séður. 

Gerald Posner, helsti fréttahaukur The Daily Beast, segist hafa upplýsingarnar frá tveimur vinum Nordegren, sem hún hafi rætt við um málið. Heimildarmennirnir segja, að Tiger hafi vitað, að tímaritið National Enquirer ætlaði að birta frétt um að hann ætti í ástarsambandi við Rachel Uchitel. Woods sagði Elinu frá þessu og sór og sárt við lagði, að ekkert væri hæft í þessu. Þau Uchitel hefðu hist einu sinni eða tvisvar en þekktust lítið sem ekkert.

Elin var hins var ekki sannfærð enda fóru nú að birtast fréttir á netinu þar sem fjallað var um væntanlega frétt Enquirer. Þann 25. nóvember bað Tiger Elinu að tala við  Uchitel í síma. Þær ræddust við í um háltíma og á eftir var Elin, að sögn heimildarmannanna, sannfærð um að þau Tiger og Uchitel væru aðeins kunningjar. 

Daginn eftir, 26. nóvember, fékk Elin hins vegar meiri upplýsingar um meint ástarævintýri manns síns, þar á meðal um að þau Uchitel hefðu hist í Ástralíu þar sem Tiger tók þátt í móti í haust. Þau hjónin rifust og Tiger ákvað að fara að sofa. Hann tók svefnlyf, eins og hann gerði gjarnan, og fór í rúmið. 

Eftir að Tiger sofnaði skoðaði Elin farsímann hans og fann þar SMS, sem hann hafði sent  Uchitel, m.a: Þú ert sú eina sem ég hef elskað. Elin sendi Uchitel þá SMS og þóttist vera Tiger. Að sögn heimildarmannanna skrifaði hún: Ég sakna þín, og: Hvenær sjáumst við aftur? 

Uchitel svaraði og gaf til kynna að þau Tiger hefðu talast við fyrr um kvöldið. Elin hringdi þá í Uchitel sem brá mjög í brún, að sögn Daily Beast.

Við þetta fylltist Elin af bræði og vakti Tiger. Hann var ringlaður vegna svefnlyfsins en að sögn heimildarmannanna mun hann hafa sent SMS til Uchitel og sagt henni að Elin hefði komist að hinu sanna um samband þeirra.

Woods flúði síðan undan Elinu, sem sveiflaði golfkylfu yfir höfði sér. Hann fór berfættur út í bíl sinn og ók af stað en ökuferðin endaði á brunahana og tré við heimreiðina. Að sögn sjónarvotta var Tiger enn undir áhrifum svefnlyfjanna og var sofandi þegar lögreglan kom á staðinn.  

Daily Beast segir, að Elin sé enn bálreið út í Tiger en ætli að bíða með ákvörðun um hvort hún krefst skilnaðar þar til maður hennar hefur lokið meðferð, sem hann er sagður gangast undir þessa dagana.

Frásögn Daily Beast

mbl.is

Bloggað um fréttina