Manuela kærir ekki

Manuela Ósk Harðardóttir var kjörin Ungfrú Ísland árið 2002
Manuela Ósk Harðardóttir var kjörin Ungfrú Ísland árið 2002 Morgunblaðið/Jón Svavarsson

Manuela Ósk Harðardóttir ætlar ekki að kæra fyrrverandi eiginmann sinn, Grétar Rafn Steinsson, fyrir að hafa látið einkaspæjara fylgjast með henni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögmaður Manuelu hefur sent fyrir hennar hönd.

Segist hún gera þetta með hagsmuni barna þeirra að leiðarljósi. Jafnframt mun hún ekki tjá sig frekar um málið en í yfirlýsingunni er fréttaflutningur DV af skilnaði hennar og Grétars harðlega gagnrýndur.

Segir í yfirlýsingunni að dómur í skilnaðarmáli þeirra Grétars hafi fallið í Bretlandi sl. föstudag og þar hafi verið fallist á flestar kröfur Manuelu. Segir að ranglega sé hermt í DV að skýrsla sem unnin var af breskum einkaspæjurum, sem Grétar leigði til þess að fylgjast með ferðum Manuelu dagana 25. ágúst til 9. september 2011, hafi haft einhverja þýðingu um niðurstöðu dómsmálsins.

„Þvert á móti þá tiltók dómari málsins það sérstaklega við dómsuppkvaðningu í London, föstudaginn 25. nóvember sl., að skýrslan hafi verið þýðingarlaus og sóun á bæði tíma og fjármunum, en Grétar mun hafa greitt háar fjárhæðir fyrir skýrsluna.

Hins vegar er ljóst að með því að óska eftir og greiða fyrir þjónustu einkaspæjara, sem höfðu Manuelu og nánustu fjölskyldu hennar undir eftirliti allan sólarhringinn, braut Grétar með freklegum hætti gegn friðhelgi einkalífs Manuelu. Að vel athuguðu máli hefur Manuela hins vegar ákveðið að láta kyrrt liggja vegna þessara réttarbrota Grétars og mun hvorki leita réttar síns hjá þar til bærum yfirvöldum á Íslandi né í Bretlandi. Er það gert með hagsmuni barna þeirra að leiðarljósi,“ segir í yfirlýsingu sem lögmaður Manuelu, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, ritar undir.

Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina