Sumt er hafið yfir tíma og rúm

Flaming Lips komu fram í Vodafone-höllinni eða Hlíðarenda á Airwaves …
Flaming Lips komu fram í Vodafone-höllinni eða Hlíðarenda á Airwaves hátíðinni árið 2014. Eggert Jóhannesson

Meistaraverk The Flaming Lips: The Soft Bulletin hljómar jafn ferskt nú og platan gerði árið 1999. Greinin birtist í Morgunblaðinu sjötta febrúar 2012.

Nú eru liðin tæp þrettán ár frá útgáfu meistarastykkisins The Soft Bulletin frá síglöðu skynvillupönkurunum í The Flaming Lips, sem eru frá Oklahoma af öllum stöðum. Platan hefur smátt og smátt öðlast sess sem tímalaust meistaraverk á meðal tónlistaráhugamanna, t.d. fær hún slétta 10 í einkunn hjá Pitchfork.com, indíbiblíunni ágætu þó reyndar sé ekki hægt að fletta dómnum upp.

The Soft Bulletin kom út árið 1999.
The Soft Bulletin kom út árið 1999.

En hvað er það sem er svona gott við plötuna og hvernig varð hún til? Svarið við því má finna að hluta til í frábærri heimildarmynd sem er að finna á áðurnefndri síðu þar sem rætt er hljómsveitarmeðlimina Wayne Coyne, Steven Drozd og Michael Ivins, upptökustjórann Dave Fridmann ofl. um gerð plötunnar. Þar kemur fram að sveitin var á tímamótum þegar platan var gerð. Eftir að hafa átt smellinn „She don’t use jelly“ í upphafi tíunda áratugarins var hljómsveitin þokkalega þekkt sem nokkuð hefðbundin bandarísk nýbylgjurokksveit. Í stað þess að fylgja þeirri velgengni eftir með fleiri smellum hrundu sölutölur sveitarinnar. 

Drozd trommuleikari og færasti hljóðfæraleikari sveitarinnar átti við þráláta heróínfíkn að stríða. Ofan á það ákvað sveitin að gefa út plötuna Zaireeka sem kom út á fjórum geisladiskum – sem þurfti að spila alla samtímis til að tónlistin hljómaði eins og ætlast var til! Galin hugmynd – en eins og allir vita er velgengni oft það eina sem skilur að snilld frá brjálæði. Á sama tíma hófust upptökur á The Soft Bulletin.

Flaming Lips um svipað leyti og The Soft Bulletin var …
Flaming Lips um svipað leyti og The Soft Bulletin var gerð. Ivins, Coyne og Drozsd. mbl.is

Engir gítarar

Þegar sveitin hóf upptökur hafði gítarleikari sveitarinnar haldið á önnur mið og ákveðið var að nýta það sem tækifæri til að bylta hljómi sveitarinnar sem var þekkt fyrir mikla gítarveggi. Lagt var upp með að engir gítarar myndu verða notaðir. Þó svo að í einhverjum lögum heyrist í gítarplokki er þetta lykillinn að þeim stóra sinfóníska hljómi sem einkennir plötuna. Skyndilega hafði myndast mikið pláss sem þurfti að gera tilraunir með hvernig ætti að útfæra. Að hluta til fóru þær tilraunir fram við gerð Zaireeka sem er mun hrárri en The Soft Bulletin en sveitin fékk að gera Zaireeka með því skilyrði að næsta plata yrði aðgengilegri.

Þar sem sveitin hafði ekki hugmynd um hvernig platan ætti að hljóma fór mikil orka í að gera tilraunir og margir partar voru teknir upp aftur og aftur á ótal mismunandi vegu. Að hluta til skýrir það hversu víðfeðmur hljómurinn er. Viðtökurnar sem sveitin fékk voru líka misjafnar þegar afraksturinn var kynntur, fólk hélt t.a.m. að „Race for the prize“, þekktasta lag plötunnar, væri hálfgert grín þar sem hljómurinn á trommunum í laginu breytist svo mikið á milli kafla.

Coyne í London árið 2006. Það má alltaf treysta á …
Coyne í London árið 2006. Það má alltaf treysta á að sveitin skemmti fólki. AFP

Hugleiðingar um lífið og dauðann

En það var ekki bara hljómurinn sem breyttist, textagerðin tók líka miklum breytingum. Coyne hafði verið vanur að semja súrrealíska texta um jólahald í dýragörðum og fleira í þeim dúr. Nálgunin á The Soft Bulletin er persónulegri þar sem hversdagslegar vangaveltur um lífið og dauðann eru áberandi ásamt sögum sem flestir geta tengt við, þó alltaf glitti í húmorinn og kæruleysið sem er svo stór og heillandi þáttur í karakter sveitarinnar.

Góðar og áhugaverðar sögur eru gjarnan á bak við gerð margra platna. En The Soft Bulletin hefur náð að eldast betur en flest það sem gert var á tíunda áratugnum. Galdurinn á bak við þetta tímaleysi er þó hugsanlega að finna í sögunni um gerð hennar. Með því að kafa í óvissuna og reyna að gera plötu sem enginn var virkilega viss um hvernig ætti að hljóma var hægt að gera tónlist sem fangaði augnablikið fullkomlega en ásamt því að fjalla um hluti sem eru hafnir yfir tíma og rúm á þann hátt að aðrir tengi líka. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant