Baðar sig í sviðsljósinu með Aniston

Justin Theroux nýtur þess að vera kærasti Jennifer Aniston og baða sig með henni í sviðsljósinu. Theroux hefur aðallega leikið í óháðum kvikmyndum og var áður lítt áberandi í fjölmiðlum en nú vita skyndilega allir hver hann er.

Leikaraparið er á kynningarferðalagi til að fylgja eftir frumsýningu myndarinnar Wanderlust en þau kynntust við tökur hennar síðla árs 2010. Með ástarsambandinu við Aniston hefur Theroux skotið hratt upp á stjörnuhimininn í Hollywood. Hann er nú kominn með sömu umboðsskrifstofu og leikkonan, CAA, og getur krafist 1,3 milljarða íslenskra króna fyrir að leika í kvikmynd.

Theroux var nýverið gestur í spjallþáttum í bandarísku sjónvarpi, í fyrsta sinn á ævinni, og virtist kunna athyglinni vel. Í þætti Jimmys Kimmels reytti hann af sér brandara og í myndveri með Ellen DeGeneres sýndi hann frábæra takta í skrykkdansi.

mbl.is