Tapaði áttum í miðaldrakrísu

Keanu Reeves átti erfitt með að horfast í augu við aldurinn og lenti í basli með sjálfan sig þegar hann varð fertugur. Leikaranum, sem verður 48 ára næsta haust, finnst skammarlegt að þurfa að viðurkenna að hann hafi, eins og svo ótalmargir aðrir á undan honum, lent í dæmigerðri miðaldrakrísu.

Í viðtali við breska dagblaðið The Independent lýsir  Reeves því hvernig vonleysið helltist yfir hann þegar hann náði fertugsaldrinum. „Það er neyðarlegt að segja frá því en ég lenti í klassískri miðaldrakrísu þegar ég varð 40 ára,“ segir leikarinn. „Ég get hlegið að því núna því ég læknaðist fljótt.“

Og hann heldur áfram: „Þetta var eins og væri að ganga í gegnum mitt annað kynþroskatímabil. Ég fann fyrir miklum umskiptum, bæði hormónabreytingum og nýjum hugsunarhætti. Mér fannst ég hafa misst sjónar á því hvað ég vildi fá út úr lífinu og þurfti tíma til að að finna sjálfan mig aftur.“

mbl.is