Erfitt að halda andliti nálægt Cohen

„Þetta var einn áhugaverðasti dagur sem ég hef verið á setti hingað til verð ég að segja," segir Hanna Guðrún Halldórsdóttir, nýútskrifaður leikari í Los Angeles, sem fer með bakgrunnshlutverk í nýjustu kvikmynd gamanleikarans alræmda Sacha Baron Cohen, The Dictator eða Einræðisherrann. Hún segir erfitt að halda andliti nálægt Cohen í ham.

Hanna Guðrún lauk um áramótin námi í leiklist og fjölmiðlafræði við California Luthern University í Thousands Oaks í Kaliforníu. Hún býr nú í Los Angeles og reynir fyrir sér sem leikkona, en samkeppnin er ansi hörð. 

Stærsta myndin til þessa

„Þú þarft virkilega að leita uppi hlutverk og það er rosalega mikil samkeppni þannig að það er mikil heppni að komast að.“ Hanna Guðrún hefur leikið nokkur aukahlutverk í sjálfstæðum myndum auk lítilla aukahlutverka í Hollywoodframleiðslu. The Dictator er stærsta myndin sem hún tekur þátt í til þessa.

Tökurnar fóru fram daginn eftir Óskarsverðlaunin, en á þeim bakaði Cohen sér einmitt óvinsældir sumra en aðdáun annarra þegar hann mætti í karakter sem einræðisherrann í kvikmyndinni og olli usla á rauða dreglinum þegar hann kastaði ösku á sjónvarpsmanninn Ryan Secrest.

Cohen alvörugefinn í eigin persónu

Hanna Guðrún segir hins vegar að Cohen hafi verið allt öðru vísi í eigin persónu en hún bjóst við. „Hann var mjög alvörugefinn og hljóðlátur á milli taka, en þegar hann var kominn fyrir framan myndavélina var hann alveg í essinu sínu og impróviseraði mikið.“

Í senunni sem Hanna Guðrún tók þátt í tekur einræðisherrann á móti barni úti á miðju gólfi í verslun. „Það var fámennt á setti þennan daginn, við vorum bara sjö í allt í þessari senu en þetta tók tíma því við fengum ungbörn á settið. Það sem mér fannst flottast var hvað hann var algjörlega að passa sig með barnið. Hann fórnaði skotum og tíma til að vera alveg 100% viss um að velferð barnsins væri í fyrirrúmi.“

Nóg að gera í áheyrnarprufum

Aðspurð hvort það hjálpi til á ferlinum að fá lítið aukahlutverk í svo stórri mynd segir Hanna Guðrún að allt svona hjálpi þar sem vinnan snúist mikið um að skapa sér orðspor og mynda tengslanet meðal þeirra sem velja í hlutverkin.

Hún segist ekkert vera á leiðinni heim frá Los Angeles alveg á næstunni. „Ég er að fara í fullt af prófum og byggja mig upp svo það er alveg nóg að gera. Ég ætla allavega að reyna mitt besta hér eins lengi og ég get.“

The Dictator var frumsýnd á Íslandi í dag. Stiklu úr kvikmyndinni má sjá hér að neðan. Hanna Guðrún sést frá mínútu 2:17.

mbl.is