Þarf að komast í meðferð

Rihanna þarf nauðsynlega að komast í áfengismeðferð, hvílast og ná áttum eftir mikla vinnu og hömlulaust skemmtanalíf síðustu vikur og mánuði. Þetta er mat náinna vina söngkonunnar sem hafa af henni miklar áhyggjur og segja hana aðeins sofa tvo tíma á sólarhring.

Haft er eftir einum þeirra í tímaritinu Look að Rihanna sé undir miklu álagi og þegar hún sé ekki í vinnunni haldi hún til á skemmtistöðum og vaki heilu næturnar. Þeir sem standa henni næst hafa grátbeðið hana um að fara í áfengismeðferð en hún telur sig ekki þurfa þess.

Rihanna hefur nýlokið miklu tónleikaferðalagi þar sem hún fylgdi eftir nýjustu plötu sinni og síðustu mánuði hefur hún unnið ötullega að kynningu myndarinnar Battleship, þar sem hún reynir í fyrsta sinn fyrir sér á hvíta tjaldinu. Mikill tími og orka hefur farið í tónlistina og kvikmyndaleikinn og söngkonan nær aldrei að slappa af.

„Í stað þess að hvíla sig þegar hún er ekki að vinna fer hún út að skemmta sér og sefur oft aðeins tvo tíma á nóttu,“ segir vinurinn í blaðinu. „Hún sér ekki að hún þarf nauðsynlega á hjálp að halda.“

mbl.is