UN Women styrktartónleikar á Gauknum

Snorri Helgason.
Snorri Helgason. mbl.is/EJ

Góðgerðarmálefni eru gogoyoko hugleikin og hefur tónlistarveitan nú sett á laggirnar nýja tónleikaröð á Gauk á Stöng þar sem einu málefni er lagt lið í hvert sinn. Tónleikarnir verða haldnir ársfjórðungslega og á fyrstu tónleikunum sem haldnir verða í kvöld  koma fram Mammút, Tilbury, Snorri Helgason, Elín Ey, Muck og Christopher Wyatt-Scott. Öll gefa þau vinnu sína til stuðnings UN Women.

UN Women fer með umboð Sameinuðu þjóðanna til að vinna að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna um heim allan. UN Women styrkir verkefni sem miða að því að binda enda á ofbeldi gegn konum, draga úr fátækt og stuðla að efnahagslegri og pólitískri valdeflingu auk þess að veita konum sjálfsögð mannréttindi. UN Women vinnur eftir þeirri hugmyndafræði að heilbrigðar og menntaðar konur sem eru þátttakendur í hagkerfinu hagnast ekki einungis sjálfar heldur skila ávinningi til barna sinna, samfélaga og þjóða. Til þess að ná þessum markmiðum treystir stofnunin alfarið á frjáls framlög frá ríkisstjórnum, fyrirtækjum og einstaklingum.

„Valdefling kvenna er frumforsenda þess að mögulegt sé að draga út fátækt í heiminum og aðeins er hægt að ná þúsaldarmarkmiðum ef bæði kynin geta fullnýtt hæfileika sína. Þrátt fyrir þetta eru jafnréttismál því miður sá málaflokkur sem fyrst verður fyrir niðurskurði þegar að kreppir. Því hefur aldrei verið brýnna að Íslendingar leggi systrum sínum víðsvegar um heim lið. Systralag UN Women á Íslandi er helsta fjáröflunarleið samtakanna. Með því að ganga í Systralagið, leggjum við okkar af mörkum til þess að gera konum kleift að mennta sig, stunda vinnu, fæða börnin sín, ferðast til og frá vinnu óáreittar og njóta allra þeirra tækifæra sem lífið hefur upp á að bjóða. Er það ekki einmitt það sem við óskum systrum okkar og dætrum? Þetta er ósköp einfalt – bætt staða kvenna og aukið jafnrétti og valdefling er skilvirkasta leiðin til þess að búa til betri heim. Starf íslensku landsnefndarinnar er að vekja athygli almennings á þörfum kvenna í fátækum löndum og starfi UN Women, afla fjár til starfsins og hvetja ríkisstjórnir sínar til að taka þátt í því,“ segir Hanna Eiríksdóttir talskona UN Women.

Tónleikarnir hefjast kl. 22.00 og kostar 1000 kr. inn.

mbl.is