Einstakt bréf Jónasar Hallgrímssonar á sýningu

Jónas Hallgrímsson.
Jónas Hallgrímsson.

Einstakt bréf frá þjóðskáldinu Jónasi Hallgrímssyni til dansks vinar síns og starfsbróður verður sýnt opinberlega á sýningu Landssambands íslenskra frímerkjasafnara um helgina. Bréf og handrit rituð eigin hendi Jónasar eru afar fágæt og enn sjaldgæfara að þau komi fyrir almenningssjónir.

Samkvæmt upplýsingum Gísla Geirs Harðarsonar, formanns sýningarnefndar, skrifaði Jónas bréfið í Reykjavík 1. maí 1842 og sendi til Japetusar Steenstrups, náttúrufræðings og eins besta vinar síns. Hann bjó þá í Sorø (Sórey eða Saurum), kenndi við Akademíið þar og átti merkilegan fræðimannsferil. Jónas og Japeteus höfðu þá brallað ýmislegt saman misserin á undan, meðal annars ferðast vítt og breitt um Ísland til að safna steinsýnum og gera margvíslegar náttúrufræðilegar athuganir. Heimildir voru um að Daninn hafi verið heldur liprari á fæti og fús að fara upp fjallshlíðar og um kletta og klungur, meðan skáldið hafi heldur kosið að halda sig nær tjaldinu. Kallaði Steenstrup vin sinn „brennisteinsmeistarann" stundum í hálfkæringi.

Jónas hafði sent steinasýni og dýr til Danmerkur en fengið þau svör frá Reinhardt, prófessor í dýrafræði við Hafnarháskóla, að hann væri óánægður með sendinguna því að lítið sem ekkert hefði fengist fyrir munina miðað við gildandi verð. „Nú spyr ég bara, er einhver heilbrigð skynsemi í þessu öllu saman? Get ég skapað verðmætar skepnur fyrir íslenska dýraríkið?“ spyr Jónas kaldhæðnislega í bréfi sínu. Hann kvartar yfir peningaleysi sem valdi honum ýmsum vandræðum en hann ætli þó ekki að láta hugfallast. „Það sem verður það verður en ég gef ekki áform mín upp á bátinn, en þetta er þó í annað skiptið á ævinni sem það leitar þungt á mig að gefast alveg upp.“

Í ævisögu Jónasar sem Páll Valsson ritaði segir m.a. að „Steenstrup var maður að skapi Jónasar, brennandi í andanum, sístarfandi og kynnti sér hlutina til hlítar. En hann var líka gleðimaður sem hafði gaman af leik og spjalli, var m.a ágætur leikari og eftirherma eins og Jónas og hafði góð áhrif á umhverfi sitt.“

Árið eftir að bréfið var skrifað dvaldist Jónas heilan vetur hjá Steenstrup í Sorö. Þeir eru báðir skrifaðir fyrir ritgerðinni „De islandske Svovllejer“, sem byggir að mestu á rannsóknum þeirra í Reykjahlíð. Náttúrufræðingurinn danski reyndist Jónasi mikill haukur í horni og þegar Jónas lést fyrir aldur fram syrgði hann skáldið og vísindamanninn ákaflega.

Á sýningu Landssambands íslenskra frímerkjasafnara, FRÍMERKI 2012, er að finna marga fágæta muni og óvenjulega, bæði frímerki og gripi sem tengjast póstsögu þjóðarinnar. Sýningin er opin um helgina í salarkynnum KFUM og K á Holtavegi.

Bréf Jónasar Hallgrímssonar sem hann sendi vini sínum 1. maí …
Bréf Jónasar Hallgrímssonar sem hann sendi vini sínum 1. maí árið 1842.
Bréf Jónasar Hallgrímssonar sem hann sendi vini sínum 1. maí …
Bréf Jónasar Hallgrímssonar sem hann sendi vini sínum 1. maí árið 1842.
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er alltaf gaman að geta komið öðrum á óvart, láttu það eftir þér. Vertu óhrædd/ur við að koma hugmyndum þínum á framfæri í vinnunni.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er alltaf gaman að geta komið öðrum á óvart, láttu það eftir þér. Vertu óhrædd/ur við að koma hugmyndum þínum á framfæri í vinnunni.