Kærustupar í ár

George Clooney og Stacy Keibler hafa verið par í eitt ár og ætla að halda upp á það með rómantískri ferð til Ítalíu.

Clooney á glæsilegt hús við hið ægifagra Como-vatn og það var einmitt þar sem ástin á milli þeirra kviknaði fyrir alvöru.

Clooney og Keibler fóru að draga sig saman síðastliðið sumar en sambandið tók að þróast fyrir alvöru þegar leikarinn bauð unnustunni með sér til Como.

„Þau tengdust tryggðaböndum á Ítalíu síðasta sumar,“ segir vinkona Keibler í viðtali við tímaritið Life & Style.

Parið er um þessar mundir í fríi í Cabo San Lucas í Mexíkó en framundan er afmælisferðin til Como.

mbl.is