Þroski, kraftur og sjálfstraust

Thomas Hampson
Thomas Hampson

„Ég hef aldrei komið til Íslands og finnst það mjög spennandi,“ segir bandaríski barítónsöngvarinn Thomas Hampson en hann mun halda tónleika, ásamt píanóleikaranum Wolfram Rieger, í Eldborgarsal Hörpu, 6. febrúar á næsta ári.

Spurður að því hvort hann hafi heyrt af nýja tónlistarhúsinu í Reykjavík segist hann hafa heyrt heilmikið um það og húsið sé ein af ástæðum þess að hann hafi ákveðið að halda tónleika á Íslandi.

Hampson hefur notið mikillar velgengni um árabil og telst til helstu stjarna óperuheimsins í dag, hefur sungið burðarhlutverk í virtum óperuhúsum á borð við Metropolitan-óperuna í New York, La Scala í Mílanó og Staatsoper í Vínarborg. Hann hefur sungið inn á um 150 plötur, fimm sinnum hlotið hollensku Edison-verðlaunin fyrir framúrskarandi árangur í tónlist, Grammy-verðlaun, frönsku Grand Prix du Disque-verðlaunin og þýsku Echo-verðlaunin sem söngvari ársins, svo fátt eitt sé nefnt. Þá er hann einnig stofnandi The Hampsong Foundation, stofnunar sem hefur það að markmiði að kynna og efla sönglist í Bandaríkjunum og á heimsvísu og samskipti ólíkra menningarsamfélaga. Hampson er 57 ára og þreytti frumraun sína á óperusviði árið 1974. Afrekaskráin er því orðin æði löng.

Blaðamaður sló á þráðinn til Hampsons í byrjun viku og ræddi við hann um sönglistina og tónleikana.

Ólíkar áskoranir

– Hvaða hlutverk myndir þú segja að hefði verið mesta áskorunin fyrir þig á ferlinum?

„Þetta er góð spurning,“ svarar Hampson og þarf ekki að hugsa sig lengi um. „Dr. Faust eftir Ferruccio Busoni, það er mikil áskorun, ég var að syngja Mandryka í Arabella (eftir Richard Strauss), það hlutverk er mikil áskorun hvað söng varðar,“ nefnir Hampson. Þá sé það mikil áskorun að túlka ákveðnar persónur óperuverka, t.d. Macbeth, Iago og Boccanegra í óperu Verdis, Macbeth.

– Hvers konar barítón ertu?

Hampson skellihlær og segir spurninguna mjög góða. „Að öllu gamni slepptu þá held ég að ég sé í grunninn lýrískur barítón með mikla dramatíska möguleika,“ svarar Hampson. Rödd hans sé það sem á þýsku sé kallað „strahlend“, kraftmikil og tær og krafturinn meiri á hærri nótunum. Röddin sé samt sem áður ágætlega djúp.

Röddin er tungumál

– Nú ertu þekktur af því að geta sungið í ýmsum stíl, t.d. ljóðasöng, óperu og söngleikjatónlist.

„Ég tek tónlistina sem tungumál mjög alvarlega. Ef ég nýt tónlistarinnar, kann að meta hana og tel mig geta sungið hana þá syng ég hana. Ég einbeiti mér fullkomlega að því sem ég er að syngja hverju sinni og engu öðru, að röddin sé það tungumál tónlistarinnar sem hún þarf að vera,“ segir Hampson. Þá skipti engu hvort hann sé að syngja verk eftir Cole Porter, George Gershwin, Richard Wagner eða Gustav Mahler. Hann sé fyrst og fremst hrifinn af ólíkum sálfræðilegum nálgunum tónlistarinnar og einbeiti sér að því að túlka þær ólíku leiðir listarinnar sem farnar hafi verið í því að sýna fólki hvað það þýði að vera lifandi.

– Eru einhver markmið sem þú hefur sett þér sem listamaður sem þú hefur ekki enn náð, ef svo mætti að orði komast?

„Ég er ekki viss um að það séu einhver ákveðin markmið ef við erum að tala um óuppfyllta drauma. Ég hef verið afar lánsamur og markmið mín og draumar núna eru að halda heilsu og halda áfram þessari könnun minni. Mér finnst ég syngja betur núna en nokkru sinni, mér finnst ég búa yfir ákveðnum krafti og þroska sem ég geti jafnvel nýtt mér í verkum sem ég hef sungið nokkuð lengi,“ segir Hampson. Hann hlakki til þess að syngja ákveðin hlutverk sem bíði hans, hann muni t.d. árið 2014 syngja í fyrsta sinn í óperunni Woyzeck eftir Alban Berg og einnig takast á við Don Giovanni og Brúðkaup Fígarós eftir Mozart, svo eitthvað sé nefnt. Verkin séu mörg sem hann langi að glíma við á næstu árum.

„Mér finnst ég ekki ófullnægður, ég vil bara halda mínu striki,“ bætir Hampson við kíminn. Hann sé í sínu besta formi hvað varðar þroska, kraft og sjálfstraust. Þetta haldist í hendur. „Ég vona að ég geti haldið þeim glugga opnum sem lengst,“ segir Hampson og hlær.

Lög og aríur í bland

Hvað efnisskrána á tónleikunum í Eldborg varðar segir Hampson að hún sé ekki tilbúin. Hann muni syngja þekkt lög og aríur í bland, t.d. eftir Schubert, Liszt og Wagner, líklega á þremur eða fjórum tungumálum. Efnisskráin muni höfða til unnenda góðrar tónlistar fyrst og fremst, sé ekki samin með óperunnendur eina í huga.

Frekari fróðleik um Hampson og stofnun hans, The Hampsong Foundation, má finna á vefsíðunni hampsongfoundation.org. Viðtalið í heild sinni má finna í Morgunblaðinu í dag.