Hver man ekki eftir Norm, gæjanum sem var eins og eitt af húsgögnunum á barnum Staupasteini sáluga í samnefndum þáttum?
Nýverið birtust af því fréttir að George Wendt, sem löngum fór með hlutverk Norm, hefði lent á spítala með verk fyrir brjósti.Var leikarinn við æfingar á leikritinu The Odd Couple í Chicago þegar hann veiktist að sögn dagblaðsins Chicago Tribune.
Að sögn leikstjóra sýningarinnar, Timothy Evans, fór betur á en horfðist og mun leikarinn jafna sig að fullu. Hann hefur hins vegar dregið sig út úr verkinu, sem átti að frumsýna hinn 9. nóvember næstkomandi.
Það er annars af leikurunum úr Staupasteini að segja að þeir komu saman fyrir skömmu og fögnuðu 30 ára afmæli þáttanna um barinn góða. Nutu þættirnir mikilla vinsælda á árunum 1982 til 1993 og eru fyrir löngu orðnir klassík.