Hrafnsauga fékk Íslensku barnabókaverðlaunin

Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson taka við Íslensku barnabókaverðlaununum.
Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson taka við Íslensku barnabókaverðlaununum. mbl.is/Árni Sæberg

Hrafnsauga eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson bar sigur úr býtum í samkeppni um Íslensku barnabókaverðlaunin í ár. Verðlaunin voru afhent í Austurbæjarskóla í morgun. Um er að ræða fyrstu skáldsögu höfundanna.

Hrafnsauga er fyrsta bókin í Þriggja heima sögu, spennandi sagnaflokki þar sem blóðgaldrar, falin leyndarmál og gleymdar óvættir ógna heimunum öllum.

„Þetta er fantasía sem gerist í umhverfi sem minnir svolítið á Ísland fortíðarinnar. Við vildum skrifa íslenska fantasíu en ekki sem eftirhermu af ensku módeli. Við vildum reyna að búa til eitthvað algjörlega íslenskt þannig að við tókum mikið úr fortíð Íslands,“ segir Snæbjörn í samtali við mbl.is um bókina. Sögusvið bókarinnar sé fornt samfélag og sagan segi af hópi 16 ára ungmenna sem þurfi að yfirgefa þorpið sitt í kjölfar árásar og læra að bjarga sér.

Kjartan segir ákveðinni atburðarás hrundið af stað í byrjun sem ungmennin átti sig ekki á í fyrstu en blóðgaldrar, falin leyndarmál og gleymdar óvættir sem ógna heiminum koma m.a. við sögu í bókinni. „Við tökum inn element úr sögu norrænna þjóða til að gera heiminn aðeins kunnuglegri fyrir lesendur, þægilegri að meðtaka,“ segir Kjartan. Snæbjörn segir bókina höfða til unglinga og eldri, sama hóps og bókasyrpan um Hungurleikana.

Um bókina segir:

Nær þúsund ár eru liðin frá því myrkraöldin leið undir lok, þegar vitringarnir sjö komu saman og sigruðu skuggana. Hin myrka tíð hefur að mestu gleymst. En þótt minni manna sé brigðult gleyma hin fornu öfl engu.

Innvígsluhátíðin nálgast, dagurinn þegar þulnameistarinn tilkynnir Ragnari, Breka, Sirju og jafnöldrum þeirra í þorpinu hvaða hlutverkum og skyldum þeim er ætlað að gegna.

Krakkarnir ættu að njóta seinustu áhyggjulausu daganna í sumarsólinni en framtíðin ber annað í skauti sér. Án þess að friðsælir þorpsbúarnir viti af því hefur óstöðvandi atburðarás verið hrundið af stað. Hin fornu öfl sem eitt sinn steyptu heiminum í aldalanga nótt hafa vaknað og manngálkn þeirra eru aftur farin á stjá. Þau sækjast eftir einhverju í þorpinu, einhverju sem hefur verið falið í norðrinu frá ómunatíð. Fyrr en varir eru krakkarnir dregnir inn í atburði og ráðabrugg sem þeir hafa engan skilning á og komast að því að gjörðir þeirra skipta sköpum fyrir örlög þriggja heima.

Barnabókaverðlaunin, sem nema 500.000 krónum, voru afhent í morgun auk þess sem höfundar tóku við fyrsta eintaki verðlaunabókarinnar sem kemur út hjá Forlaginu/Vöku-Helgafelli í dag.

Að verðlaununum standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, barnavinafélagið Sumargjöf og Ibby á Íslandi.

Kápa verðlaunabókarinnar, Hrafnsauga.
Kápa verðlaunabókarinnar, Hrafnsauga.
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu ekki eigin vangaveltur draga athygli þína um of frá verkefnum dagsins. Gakktu úr skugga um að þú vitir hvaða breytingar þú vilt.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Colleen Hoover
2
Guðrún J. Magnúsdóttir
4
Róbert Marvin
5
Kolbrún Valbergsdóttir

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu ekki eigin vangaveltur draga athygli þína um of frá verkefnum dagsins. Gakktu úr skugga um að þú vitir hvaða breytingar þú vilt.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Colleen Hoover
2
Guðrún J. Magnúsdóttir
4
Róbert Marvin
5
Kolbrún Valbergsdóttir