Steve Martin loks orðinn faðir

Steve Martin er loksins orðinn pabbi.
Steve Martin er loksins orðinn pabbi. Reuters

Grínleikarinn Steve Martin varð faðir í fyrsta sinn fyrir skömmu, þegar honum og konu hans, Anne Stringfield, fæddist þeirra fyrsta barn. Leikarinn er 67 ára gamall.

„Þau eignuðust barn en hvernig þeim tóks að halda því leyndu veit enginn, Steve er mjög annt um einkalífið,“ hefur dagblaðið New York Post eftir ónafngreindum heimildamanni sínum. Segir sá parið vera í skýjunum með erfingjann, sem fæddist í desember, en þau hafi haft mikið fyrir því að eignast hann.

Martin hefur leikið ófá föðurhlutverkin í kvikmyndum í gegnum tíðina, t.d. í gamanmyndunum Cheaper By The Dozen, Father of the Bride og hinni klassísku Parenthood svo fáeinar séu nefndar.

Martin og hin 41 árs Stringfield giftu sig öllum að óvörum eftir þriggja ára samband árið 2007. Höfðu þau boðið fjölda vina til veislu, þ.á.m. Tom Hanks, Diane Keaton og mökum, en enginn vissi að um brúðkaup væri að ræða. Áður hafði leikarinn verið kvæntur leikkonunni Victoriu Tennant en þau skildu árið 1994.

Ekki hefur enn verið greint frá kyni barnsins samkvæmt vef Daily Mail.

mbl.is