Lagði sérhvert land undir fót

Gunnar Garfors fagnar því að hafa ferðast til allra landa ...
Gunnar Garfors fagnar því að hafa ferðast til allra landa heims. VG.no

Norðmaðurinn Gunnar Garfors er víðförull maður þrátt fyrir að vera bara 37 ára gamall en hann hefur ferðast til allra landa á jörðinni. Hann hóf ferðalag sitt árið 2008 og því lauk í síðustu viku þegar hann lenti á Grænhöfðaeyjum. Verdens Gang fjallar um málið á heimasíðu sinni.

Gunnar segir við VG.no að sér líði vel með áfangann og að hann hafi fengið gæsahúð þegar hann lenti. Hann hefur nú ferðast til samtals 198 landa, en þá tölu fékk hann með því að leggja saman 193 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna við tvö ríki sem eru með áheyrnaraðild, Vatíkanið og Palestínu, ásamt þremur öðrum ríkjum sem njóti stuðnings margra í alþjóðasamfélaginu, Kósóvó, Vestur-Sahara og Taívan. Hann segist ekki hafa talið með lönd á borð við Skotland og Wales sem séu bara viðurkennd í fótbolta en ekki á alþjóðavettvangi. 

Ísland eitt af uppáhaldslöndunum

Garfors hefur ferðast til margra landa þar sem venjulegir ferðamenn myndu varla stíga niður fæti, eins og Afganistans og Sómalíu. Segir hann að ýmsir hafi sagt hann vera galinn fyrir að reyna þetta ferðalag. 

VG bað hann um að nefna tíu uppáhaldslöndin sín og var Ísland á meðal þeirra. Hældi hann náttúrunni og þjóðinni og sagði hvort tveggja vera „hrátt“ og einstakt. Önnur lönd sem Gunnar nefndi voru Argentína, Kirgistan, Japan, Írland, Stóra-Bretland, Georgía, Madagaskar og Marshall-eyjar. Að lokum má nefna að þótt Gunnar hafi lagt sérhvert land undir fót bera hugur hans og hjarta enn heimalandsins mót, því að tíunda landið sem Gunnar nefnir er Noregur, vegna náttúrunnar í Norður- og Vestur-Noregi.

mbl.is