Storkur grunaður um njósnir

Storkurinn.
Storkurinn. Sky-fréttastofan

Storkur var settur á bak við lás og slá í Egyptalandi nýlega eftir að maður sem var við veiðar í ánni Níl rak augun í rafbúnað sem festur var við fuglinn. Storkurinn hefur verið í haldi lögreglu í Egyptalandi síðan, grunaður um njósnir.

Sjómaðurinn var sannfærður um að fuglinn væri leynilegur njósnari, fangaði fuglinn og færði hann á lögreglustöð í nágrenninu. Undrandi lögreglumennirnir skoðuðu fuglinn og óttuðust að búnaðurinn væri mögulega sprengja eða njósnatæki og kölluðu að lokum til dýralækni.

Að lokum kom í ljós að tækið var búnaður til að fylgjast með dýralífi og hafði franskur vísindamaður komið honum fyrir til að fylgjast með farfuglum. Vísindamaðurinn sagði að búnaðurinn hefði hætt að virka þegar fuglinn fór út fyrir landamæri Frakklands og því væri ekki um njósnara að ræða.

Þrátt fyrir að fuglinn sé ekki lengur grunaður um njósnir, verður hann áfram í umsjón lögreglunnar sem þarf formlegt leyfi til að sleppa fuglinum.

Sky-fréttastofan greinir frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina