Ungfrú Ísland með sixpack

Magnea Gunnarsdóttir
Magnea Gunnarsdóttir Morgunblaðið/Rósa Braga

Módelfitness er umdeilt efni og þá eflaust sérstaklega sökum þeirra áhrifa sem keppnirnar eru sagðar hafa á ungar konur. Monitor fékk tvær ungar konur til að greina frá sinni skoðun.

Sem keppandi í módelfitness get ég einungis talað um mína reynslu og mína upplifun af því að keppa og fylgjast með þessari skemmtilegu íþrótt síðustu tvö árin.

Keppendur í módelfitness eru stelpur með ólíkan bakgrunn, allt frá afreksíþróttamönnum sem af einhverri ástæðu ákváðu að hætta í sinni íþrótt og hafa fundið þörf sinni fyrir að æfa mikið og keppa í þessu sporti yfir í stelpur sem voru kannski lítið í íþróttum en hafa fundið sig í tækjasölum landsins og einhvern veginn langar að fara lengra með formið. Módelfitness er, eins og flestar afreksíþróttir, mjög krefjandi sport og ætti enginn keppandi að fara út í undirbúning fyrir keppni og halda að ferlið verði auðvelt. Flestar stelpur sem eru í undirbúning fyrir keppni æfa einu sinni til tvisvar á dag, sex daga vikunnar og borða sex-sjö litlar máltíðir á dag. Einhverjum kann að finnast það mikið en það er líka mikið lagt upp úr að hvíla líkamann vegna þess að vel hvíldur líkami starfar betur en þreyttur, hvort sem er í uppbyggingu eða í niðurskurði. Það er einnig  mikið lagt upp úr því að borða rétt samsettar máltíðir, því ef að við fáum ekki nóg af orku og næringarefnum fer líkaminn að hægja á sér og í raun að vinna á móti okkur og það viljum við ekki.

Til að geta komið fyrir æfingum, öllum þessum máltíðum, skóla og jafnvel vinnu þarf mikið skipulag til og viðkomandi mun læra að hámarksnýta þann tíma sem hann eyðir í alla þessa þætti. Margir keppendur hafa talað um að þeim gangi aldrei eins vel í skólanum og þegar þeir eru í niðurskurði, þar passa þeir jú að borða oft yfir daginn og eru því með jafna orku, það eru engin einföld kolvetni í mataræðinu hjá þeim þannig að það eru litlar orkusveiflur og þeir æfa vel sem gefur þeim útrás og andlega hvíld. Stelpur sem ákveða að taka líkama sinn og lífsstíl í gegn, hreyfa sig meira, næra sig rétt og hugsa betur um útlit sitt hljóta að styrkja sjálfsöryggi sitt og sjálfsmat.

Módelfitness er íþrótt sem er á hraðri uppleið á Íslandi, á síðasta Íslandsmóti IFBB sem haldið var um páskana voru t.d. um 80 stelpur að keppa og búist er við metþátttöku á næsta Íslandsmóti. Við eigum þónokkrar stelpur sem hafa gert það gott á erlendum vettvangi, við eigum heimsmeistara, heimsbikarmeistara, og Arnold Classic USA sigurvegara sem sýnir að gæðin á íslenskum keppendum eru ansi mikil. Sumir segja jafnvel að módelfitness sé hið nýja ungfrú Ísland - bara núna er hún með sixpack.

Módelfitness hefur verið skotspónn margra síðustu mánuði og því miður er mikið af röngum upplýsingum í umferð um módelfitness sem ber að leiðrétta. 

1) Sterar og ólögleg brennsluefni eru hluti af matseðli módelfitnesskeppanda.

Í reglum IFBB á Íslandi segir: 

„Leitað er að keppendum sem bera það með sér að vöxturinn sé tilkominn vegna íþróttaiðkunar, limaburður fallegur og sýnt er fram á hæfileika til fyrirsætustarfa. Keppendur eiga að sýna fram á fallega kvenlega líkamsbyggingu, hóflega stæltan líkama sem og fallega tónaðan og samræmdan vöxt.“ 

Enginn keppandi ætti að þurfa að leita í ólögleg hjálparefni  ef hann ætlar sér að fara eftir þessum reglum.

2) Keppandi sveltir sig til að ná sér í form. Sjá að ofan.

3) Keppandi hættir á blæðingum.

Þetta er reyndar oft rétt en þetta einskorðast ekki við módelfitness eins og umræðan hefur verið, heldur er þetta vel þekkt á meðal kvenna í afreksíþróttum eins og fimleikum, ballett o.fl. Þetta er ekkert hættulegt heldur er líkaminn aðeins að láta þig vita að þú sért undir það miklu álagi núna að hann sé ekki reiðubúinn að verða óléttur, þetta gengur til baka.

4) Þú færð búlimíu eða anorexíu ef þú keppir í módelfitness.

Enginn fær þessa sjúkdóma út frá sportinu en það eru vissulega til dæmi um að stelpur sem eru veikar fyrir sæki í módelfitness og þyki það hjálpa þeim að ná tökum á sjúkdómum sínum. Þær neyðast til að borða og æfa rétt til að ná árangri.

 Það að keppa í módelfitness getur verið jákvætt, skemmtilegt og mjög lærdómsríkt ferli ef rétt er að staðið og því er mikilvægt að leita til fagaðila þegar ákveðið er að undirbúa líkamann fyrir keppni. 

Magnea Gunnarsdóttir

monitor@monitor.is


Frekari umræður um módelfitness og viðtal við Margréti Eddu Gnarr er meðal þess sem finna má í nýjasta tölublaði Monitor hér að neðan.


mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant