Sat í sama fangelsi og önnur stúlkan í Tékklandi

Upplifun flests ungs fólks á fangelsiskerfinu er eðlilega einungis komin úr kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og dagblöðum. Monitor þótti því spennandi að skyggnast örlítið dýpra inn í heim hinna frelsissviptu og ræddi blaðamaður í því skyni við fyrrum síbrotamann sem hefur afplánað dóma í þremur löndum.

Hvenær lentir þú fyrst í fangelsiskerfinu og hvers vegna?

Ég fór fyrst í fangelsi árið 2004 og sat inni erlendis fyrir fíkniefnabrot. Ég fór fyrst inn í eitt ár og fimmtán daga. Ég er alkóhólisti og eitt leiddi af öðru, ég fór að nota fíkniefni, fór í smásölu og síðan fór bara allt í steik.

Var það þá peningaskortur sem leiddi þig út í afbrot?

Bæði vantaði mig pening og fyrir mig að vera í þessum heimi þá er í raun og veru enginn að setja út á neysluna þína, þetta er að miklu leyti bara „normið“ og allt miðaði að því að borga neysluna.

Sast þú oft inni á Íslandi?

Ég sat einu sinni inni hérna heima, tvisvar í öðru ónefndu landi og einu sinni í Tékklandi, en þar sat ég í sama fangelsi og önnur stelpan sem er þar núna. Ég vil einmitt leggja áherslu á það, en umræðan er mikið sú að stelpurnar eigi þetta skilið. Það voru sýndar einhverjar myndir af þessu fangelsi um daginn sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Þrátt fyrir að vera orðnar fullorðnar í lagalegum skilningi eru þessar stelpur bara börn sem eru misnotaðar af fullorðnu fólki til þess að fremja þessi afbrot. Þær eiga auðvitað að axla einhverja ábyrgð á þessu samt, ég er ekki að gera lítið úr því, en það er ekkert þarna inni sem mun gera þær að betri manneskjum. Það eru þrír saman í klefa og þú getur aldrei farið úr inniskónum í klefanum. Þú ert ekki með heitt vatn í klefanum heldur færðu að fara í sturtu einu sinni í viku í fimm mínútur og þarft þá að deila sturtuhausnum með samfanga þínum auk þess sem nærföt og slíkt eru þvegin þarna með í sturtunni. Það er útivist í klukkutíma á dag úti í litlum steyptum garði. Lengd dómsins er ekki endilega það sem skiptir máli, heldur frekar það hvernig þessar aðstæður eru.

 

Eru þetta samt ekki mjög þungir dómar?

Fyrir þrjú kíló af kókaíni? Ég veit það ekki. Það var strákur tekinn þarna úti með fimmtán grömm af kókaíni og hann sat inni í eitt ár. Punkturinn er hins vegar sá að þetta er ekki góður staður fyrir þessar stelpur, þær eru börn sem eru að taka sín fyrstu skref í lífinu og fólk á frekar að leggjast á eitt við að koma þeim út úr þessum heimi og þessu líferni. Framtíðin síðan leiðir í ljós hvað þær gera við þau tækifæri sem þær fá síðar í lífinu, en þær koma a.m.k. ekki betri þarna út. Kerfið hérna heima er sannarlega gott til þess að hjálpa fólki að ná áttum aftur og þær kæmu vafalaust mun betur út úr því heldur en tékkneska fangelsinu. Ég get heldur ekki sett mig í spor foreldranna að þurfa að lesa ummæli á þessum kommentakerfum þar sem fullorðið fólk kemur fram undir fullu nafni og segir að þær eigi þetta bara skilið. Fíkniefnin eru sannarlega slæmur hlutur og hafa farið skelfilega með marga í kringum mig þannig að ég geri ekki lítið úr þeim vanda eða glæpum tengdum þeim, en ég trúi því samt að betrun sé það sem þessar stelpur þurfa frekar en geymsla.

Voru þetta þá mjög harðsvíraðir glæpamenn sem þú sast inni með í Tékklandi?

Nei nei, ekkert frekar. Aðstæðurnar voru hins vegar mjög slæmar og þetta var bara eins og að koma inn í gamlan bílskúr austur á fjörðum að fara inn í klefann, öll málning svona flögnuð af og allt frekar sérstakt. Ég var reyndar spurður hvort ég vildi reykingaklefa eða reyklausan þegar ég mætti (hlær). Ég valdi reyklausan og sat inni með karli sem var bara fínn, hann kunni að afplána og ég líka þannig að þetta gekk ágætlega.

Maður sér alltaf svona amerískar fangelsismyndir þar sem þú þarft bara að vera í réttu klíkunni eða þú ert dauður. Er þetta ekki svona í raunveruleikanum?

Þetta er alveg til, bæði erlendis og hér heima, en þú bara velur að taka ekki þátt í þessu og það er ekkert mál. Það eru hins vegar búin að vera þrjú dauðsföll í íslenskum fangelsum nýlega og eitthvað vesen upp á síðkastið sem er mjög sorglegt, því í grunninn hérna heima er fangelsi líklega besti staður sem þú getur fundið til þess að byrja nýtt líf. Þar er auðvitað líka verið að taka af þér frelsið en það er aldrei hægt að taka af þér valið um það hvernig þú hagar þínu lífi.

Hér sést aðeins örstutt brot úr umfjöllun um fangelsiskerfið. Umfjöllunina og viðtalið má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Monitor hér að neðan.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant