Allir hafa gott af hamskiptum

Egill Fannar Halldórsson er nýkominn heim úr heljar­innar ferðalagi. Hér deilir hann hugleiðingum sínum um ævintýri erlendis með lesendum Monitor.

Það elskar enginn að ferðast út fyrir landsteinana eins mikið og við Íslendingar. Það er engin furða enda fáar þjóðir jafn landfræðilega einangraðar og okkar. Þess vegna taka Íslendingar oft hamskiptum í útlöndum. Það er óumflýjanlegt því þegar við yfirgefum fallegu eyjuna okkar tekur við frelsi þar sem við getum hegðað okkur eins og enginn sé að horfa og gert allt sem við viljum, þar á meðal klætt okkur í hvítar kvartbuxur og samt komist inn á skemmtistaði og baktalað furðufuglinn sem er að bora í nefið við hliðiná okkur. Og enginn veit neitt af því að við erum bara skrýtnir Íslendingar og enginn skilur orð af því sem við segjum.

Margir Íslendingar fara oft til útlanda en algengustu áfangastaðirnir eru örugglega Benidorm, Kaupmannahöfn eða, ef veskið er í góðu skapi, Flórída. Það gerist mun sjaldnar að Íslendingar fari í lengri reisur, á áfangastaði sem ekki eru á forsíðu heimsferðabæklingsins, en það er orðið gríðarlega vinsælt í dag á meðal nýstúdenta sem heyra það alla menntaskólagönguna að „núna sé eini tíminn til að fara í svona ferð“.

Ég var einmitt að koma úr einu slíku ævintýri. Ég upplifði frumskóga Striksins í Kaupmannahöfn, fór í hæstu byggingu heims í Dubai, reið um á fíl í Chiang Mai, kafaði með hákarli á Koh Tao, spilaði fótbolta á fallegustu strönd í heimi á Phi Phi, lék mér með öpunum í Batu-hellunum í Malasíu, lærði á brimbretti á Balí, synti með skjaldbökum á Gili og fór í „blackout“ á veitingastað í Kína. Eftir þetta ævintýri fór ég síðan í fjórar flugvélar á 53 tímum til þess að komast heim til elskulega Íslandsins.

Ofan á hegðunar- og klæðnaðartengdu hamskiptin sem við Íslendingar göngum í gegnum í útlöndum lendum við yfirleitt í annars konar hamskiptum líka. Þegar við lifum í rigningu og roki þrjúhundruð og fimmtíu daga á ári er fátt sælla en að komast í sólina. Þá er rosalega algengt að finnast það snilldar hugmynd að leggja sig aðeins í sólinni í þynnkunni, fara út í „siestunni“ þrátt fyrir að allir aðrir haldi sig inni og segja: „Ég þarf ekkert að nota sólarvörn, ég er ekkert búinn að brenna“. Þetta er snilldar hugarfar og ég er búinn að panta það að læra aldrei af þessum mistökum og halda áfram að furða mig á því hvernig ég fari að því að brenna alltaf í lok ferðarinnar.

Sumarið fyrir ferðina mína vann ég á mörgum vinnustöðum og umgekkst mikið af fólki. Flestir voru spenntir að heyra hvað ég var að skipuleggja og hvert ég var að fara en meirihlutinn hafði aldrei farið svona langt út fyrir landsteinanna og hlustuðu af öfund. Þau sögðu að það væri svo frábært að ég væri að fara og að það væri hárrétt á þessum tímapunkti því ég gæti náttúrlega aldrei aftur farið í svona ferð. Ekki eftir að ég er kominn í vinnu og með kærustu og svona. Svo myndi þetta vera svo lærdómsríkt fyrir mig. Að standa á eigin fótum í tvo mánuði, bras á flugvöllunum, samskipti við fólk sem kunni ekki orð í ensku og að bera fullkomna ábyrgð á eigin gjörðum. Síðast en ekki síst yrði þetta líka ævintýri lífs míns sem ég myndi aldrei gleyma.

Allt þetta fólk hafði svo mikið af góðum ráðum í viskubrunninum sínum sem ég nýtti mér og þau höfðu svo sannarlega rétt fyrir sér með margt. Ég lærði margt nýtt, ég á eftir að sjá það meira og meira eftir því sem á líður að ég þroskaðist vonandi eitthvað og enginn vafi er á því að ég hef aldrei skemmt mér jafn mikið á tveimur mánuðum. En í einu var ég ósammála öllum. Ég mun aldrei fara í þessa ferð aftur en það þýðir ekki að ég muni aldrei ferðast svona aftur. Þvert á móti. Það geta allir ferðast og mér finnst að þeir sem langi það eigi að byrja að skipuleggja það strax. Allavega að láta sig dreyma.

Það getur verið ógnvekjandi að brjóta rútínuna sína svo mikið en þetta er miklu minna mál en þeir sem hafa aldrei farið ímynda sér. Að vísu geta aðstæður verið miklu flóknari þegar maður er eldri en það er engin afsökun. Það krefst bara meira skipulags auk klípu af hugrekki að taka ákvörðun um að yfirgefa þægindakassann sinn í smá-tíma. Ég held að allir hafi gott að því að taka smá-hamskiptum við og við og af hverju ekki að gera það á meðan maður horfir á sólsetrið á Balí?

Egill Fannar Halldórsson

monitor@monitor.is

Lestu pistil Egils ásamt fjölmörgu fleiru í nýjasta tölublaði Monitor hér að neðan!

p> 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson