Fór Simon Cowell landavillt?

Simon Cowell.
Simon Cowell. ANDREW COWIE

Halda mætti að X Factor-dómarinn Simon Cowell hefði heldur betur farið landavillt þegar hann þakkaði bandarísku þjóðinni fyrir lagið Little Talks sem er, eins og flestir Íslendingar vita, eftir íslensku hljómsveitina Of Monsters and Men. 

Söngdúettinn Alex og Sierra flutti umrætt lag í þættinum X Factor USA og hlaut einróma lof dómara keppninnar fyrir frammistöðuna. Demi Lovato spáði þeim meðal annars sigri og Simon Cowell sagði lagið vera ótrúlegt og þakkaði eins og áður sagði bandarísku þjóðinni fyrir það.

Þrátt fyrir að Cowell hafi ekki tekist að rekja uppruna lagsins með réttum hætti má gera ráð fyrir að þessi góðu ummæli séu enn ein rósin í hnappagat hljómsveitarinnar Of Monsters and Men og mikil lyftistöng.

Uppfært kl. 16:54:

Í myndbrotinu segir Cowell: „Ég vil byrja á því að þakka bandarísku þjóðinni fyrir þetta lag.“ Áhorfendur þáttarins velja á ákveðnu stigi í keppninni þau lög sem þátttakendur eiga að flytja. Áhorfendur höfðu valið lagið Little Talks fyrir þau Alex og Sierru. Því er líklegt að Cowell hafi verið að vísa til þess – ekki hver höfundur lagsins væri eða hvaðan.

Hér má sjá lagið flutt af þeim Alex og Sierra.

mbl.is

Bloggað um fréttina