Búa til hárteygjur úr notuðum smokkum

Nú hefur sérstaklega verið varað við því að kaupa ódýrar hárteygjur í Kína þar sem möguleiki er á því að þær séu gerðar úr notuðum smokkum. Þrátt fyrir að smokkarnir séu endurunnir geta þeir innihaldið hættulegar bakteríur og vírusa.

Fyrst bárust fréttir um málið árið 2007, en nýlega fundust hárbönd gerð úr smokkum til sölu í matvörubúðum og hársnyrtistofum í borgunum Dongguan og Guangzhou í Suður-Kína samkvæmt dagblaðinu China Daily.

Kom meðal annars fram í blaðinu að þessar ódýru og litríku hárteygjur seldust vel en væru hættulegar heilsu fólks. Samkvæmt húðlækninum Dong, sem blaðið vitnar í, getur fólk smitast af alnæmi, kynfæravörtum eða öðrum sjúkdómum ef það setur teygjurnar í munninn.

Poki með tíu hárteygjum gerðum úr smokkum selst á aðeins þrjú sent og eru þær því mun ódýrari en aðrar teygjur á markaðnum.

Blaðið sagði jafnframt að ákveðin óvissa væri um ferlið sem verður þegar smokkunum er breytt í hárbönd, en samkvæmt sumum heimildum voru teygjurnar ekki gerðar úr notuðum smokkum heldur ónotuðum. Árið 2007 rannsakaði kínverskur blaðamaður málið og komst að því að líklegra væri að smokkarnir væru ónotaðir.

Það væri jafnframt undarlegt ferli að ímynda sér framleiðendur hárteygjanna safna saman notuðum smokkum.

Þó er ekki hægt að útiloka að einhverjar af þessum hárteygjum séu gerðar úr notuðum smokkum þótt það sé frekar ólíklegt. Kína hefur skapað sér orðspor fyrir að framleiða og flytja út hættulega hluti þannig að notendur ættu að hafa varann á því að nota hárteygjur gerðar í Kína.

mbl.is

Bloggað um fréttina