Fjarlægðu tveggja kílóa æxli úr andliti stúlku

Æxlið hafði ýtt öðru auga Dorival úr tóftinni.
Æxlið hafði ýtt öðru auga Dorival úr tóftinni.

Hin 16 ára Hennglise Dorival er óðum að venjast nýrri spegilmynd sinni eftir að læknar fjarlægðu tveggja kílóa æxli úr andliti hennar.

Dorival er frá Haiti og komst fyrst undir læknishendur þegar hún var tólf ára gömul en læknar í heimalandi hennar treystu sér ekki í að fjarlægja æxlið að fullu.

Óáreitt æxlið tók að vaxa og var það að endingu orðið svo stórt að það þrýsti vinstra auga hennar upp úr augntóftinni og hindraði eðlilega öndun. Þá olli æxlið miklum skemmdum á kjálka og andlitsvöðvum Dorival. Æxlið hindraði Dorvial frá því að sækja skóla og hún yfirgaf sjaldan heimili sitt og í þau fáu skipti sem hún hætti sér út huldi hún andlit sitt með klút.

Til allrar hamingju komust bandarísku góðgerðarsamtökin Operation Smile, á snoðir um ástand Dorival því þau söfnuðu nægu fjármagni til að koma Dorival undir læknishendur í Bandaríkjunum fyrr í þessum mánuði.

Æxlið vó tvö kíló eins og áður segir en lá sem betur fer utan höfuðkúpunnar. Það tók lækna tólf tíma að fjarlægja æxlið. Dorival mun þurfa að gangast undir nokkrar aðgerðir í viðbót enda þurftu læknarnir að fjarlægja hluta af kjálkabeini hennar við aðgerðina.

Þrátt fyrir að enn sé nokkuð í land hefur andleg líðan Dorival þegar batnað að sögn lækna hennar. Þeir segja að strax eftir fyrstu aðgerðina hafi hún tekið klútinn sem huldi andlit hennar og kastað honum frá sér með orðunum „Ég þarf hann ekki lengur“.

Svona lítur Dorival út í dag, eftir fyrstu aðgerðina.
Svona lítur Dorival út í dag, eftir fyrstu aðgerðina.
mbl.is