Ferðaðist um heiminn í 26 ár

NASA

„Þetta var alger ævintýraferð,“ er haft eftir Gunther Holtorf á fréttavefnum Thelocal.de en hann yfirgaf Bæjaraland í Þýskalandi árið 1989 á bifreiðinni sinni og var markmiðið að ferðast til Afríku. Einum 26 árum síðar er hann kominn aftur til heimalandsins eftir að hafa ferðast um heiminn allan þann tíma og lagt að baki 900 þúsund kílómetra og heimsótt 215 lönd.

Ferðalagið hófst skömmu í kjölfar þess að Holtorf, sem er 77 ára að aldri, kynntist Christine sem síðar varð fjórða eiginkona hans. Hann hafði þá sett auglýsingu í dagblaðið Die Zeit þar sem óskað var eftir ferðafélaga. Holtorf var þá nýskilinn við þriðju eiginkonuna. Þau ferðuðust saman um heiminn í rúma tvo áratugi eða þar til hún lést árið 2010 úr krabbameini. Tveimur vikum fyrir andlát hennar gengu þau í hjónaband með formlegum hætti. Holtorf hét Christine ennfremur skömmu áður en hún lést að hann ætlaði að ljúka heimsreisunni í minningu hennar.

Holtorf segist ekki muna á hvaða tímapunkti þau ákváðu að ferðast um allan heiminn en það hafi hins vegar vaknað áhugi á því að setja heimsmet. Fyrstu fimm árin ferðuðust þau um Afríku en ákváðu síðan að fara til Suður-Ameríku. Holtorf hafði komið þangað áður og vildi sýna Christine álfuna. Þaðan lá leiðin til Norður-Ameríku, Asíu, Ástralíu og loks til allra ríkja Evrópu.

Holtorf starfaði hjá þýsku flugfélögunum Lufthansa og Hapag Lloyd Flug áður en hann hélt út í heiminn á vit ævintýranna ásamt Christine. Hafði hann áður safnað nægum fjármunum til ferðarinnar en þau unnu sér einnig inn tekjur á ferðalaginum með gerð landakorta sem þau seldu. Meðal annars gerð fyrsta nákvæma landakortinu af Jakarta höfuðborg Indónesíu.

Ferðalagið var allt farið á sömu bifreiðinni, himinbláum Mercedes 300GD árgerð 1988, sem fengið hafi nafnið Ottó.

mbl.is