„Ansi djúsí tilboð komin á borðið“

Baltasar Kormákur.
Baltasar Kormákur.

Samningur Universal Studios við Baltasar Kormák og framleiðslufyrirtæki hans, RVK Studios, um gerð kvikmyndarinnar Víkingr er sá flóknasti sem Baltasar hefur komið að. En samningurinn er jafnframt vísirinn að „stóra draumnum“, að RVK Studios stimpli sig inn sem alþjóðlegt framleiðslufyrirtæki.

„Draumurinn var að búa til fyrirtæki hér á landi sem býr til verkefni og þróar. RVK Studios er afsprengi Blueeyes productions og Sagnar sem ég hef rekið frá því ég byrjaði í þessum bransa. Nú höfum við tekið það á næsta stig, framleiðum bæði íslenskt sjónvarpsefni og erlent,“ segir Baltasar Kormákur sem kom til landsins í dag en hann er svo gott sem með báða fætur á Englandi þessa dagana.

Á Englandi fer fram eftirvinnsla kvikmyndarinnar Everest sem til stendur að frumsýna í september 2015. Hann segir að eftirvinnslan muni standa vel fram á næsta ár. „Fólk heldur alltaf að maður sé bara búinn þegar það hættir að heyra fréttir af manni á einhverju fjalli og fer strax að spyrja hvenær myndin kemur í bíó. En ég held til dæmis að það hafi tekið þrjú til fjögur ár að klára Gravity. [...] Þetta er rosalega stór mynd og flókin og við erum að vinna við að hana á Englandi,“ segir Baltasar en tekur fram að eftirvinnslan hafi einnig farið fram á Íslandi, í gegnum RVX sem er hluti af RVK Studios.

Sáu útlit Everest og gengu til samninga

Þrátt fyrir að vinnsla við Everest sé í fullum gangi er Baltasar þegar búinn að fara með hana til Universal og kynna fyrir stjórnendum, en Universal framleiðir myndina. Stuttu eftir það var svo gengið frá samningum um Vikingr. Hann segir að eflaust megi túlka það sem svo að Universal hafi trú á báðum verkefnum. „Auðvitað ef þeir væru ekki ánægðir með Everest þá myndu þeir ekki ganga til samninga um hitt verkefnið. Það er alveg ljóst.“

Hann segir að samningurinn um víkingamyndina sé afar flókinn. „Þetta er flóknasti samningur sem ég hef gert. Það eru nokkrar ástæður fyrir því, til dæmis eru nokkrir aðilar sem hafa komið að þessu í fortíðinni og þá þarf að taka með í samninginn svo allir fái sitt til baka. Þá er RVK Studios aðalframleiðandi en ég hef aldrei verið í því hlutverki áður. Ég hef verið framleiðandi en aldrei sá sem stýrir för. Og þrátt fyrir að Working Title og Marc Platt, sem gerðu með mér 2Guns, komið að þessu þá er RVK Studios í bílstjórasætinu. Svo er þetta handrit eftir mig þannig að það þurfti að gera handritssamning, sem er flókið. Og að endingu þurfti að gera leikstjórasamning. þetta er því flókið og stór verkefni.“

Vikingr vonandi þríleikur

RVK Studios hefur stækkað mikið og dafnað á undanförnum misserum og kemur að innlendri sjónvarpsþáttagerð og innlendri og erlendri kvikmyndagerð. „Já, þetta er orðið ansi stór fyrirtæki. Þetta er svolítið bara kvíðvænlegt, ég kem heim og það eru hundrað manns sem sitja í fyrirtækinu að vinna,“ segir Baltasar í léttum tón. „En þetta er rosa flott, stóri draumurinn og á næstu árum mun skýrast hvernig það gengur eftir.“

Vikingr er ekki eitt og stakt markmið heldur setur Baltasar markið hærra. „Þetta er hugsað sem þríleikur, en auðvitað veit maður aldrei. Universal veit samt að þetta verður ekki ódýrt verkefni og á sömu stærðargráðu og ég hef verið að gera.“ Hann segir að fyrst verði ein mynd unnin og ef hún gengur vel mun ráðist í hinar tvær. „Ef hún verður „success“ þá verðum við tilbúnir með framhaldið. Þetta er bara eins og með Lord of the Rings, þeir gerðu eina og svo þegar þeir sáu að þeir voru með eitthvað í höndunum til að selja var ráðist í hinar. Menn gera ekki númer tvö og þrjú nema þeir séu alveg vissir um að fá peningana sína til baka.“

Næstu skref eru að þróa handritið frekar og segir Baltasar að vel metinn handritshöfundur verði fenginn til að vinna að því. „Hann mun taka við keflinu og vinna með þetta áfram. Það er eins og alltaf er gert í þessum bransa. En ég vonast til að þetta komist í gang á seinni hluta næsta árs, það er að segja undirbúningsvinnan.“

Allt óvíst með Reykjavík

Það er ekki ofsögum sagt að Baltasar sé með mörg járn í eldinum. Ef frá er talin Everest þá er framundan vinna við Vikingr sem hann segir að geti gerst mjög hratt. En hann hefur einnig verið orðaður við kvikmyndina Reykjavík. „Ég hef nú lesið ýmislegt um mig og Reykjavík. Rétt er að mér stendur það til boða [að leikstýra kvikmyndinni] en ekki er búið að ganga frá neinum samningum. Ég sagðist ekki ætla að taka það að mér nema myndin yrði öll tekin hér á landi. Til stóð að taka hana í Írlandi, vegna skattaafsláttar, en ég er búinn að koma því á framfæri að ég komi ekki nálægt verkefninu nema það verði hér á landi.“

Annars fer Baltasar dult með önnur verkefni. „Það eru önnur risa verkefni sem eru í deiglunni sem ég get ekki sagt frá eins og er. [...] Ansi djúsí tilboð komin á borðið. Það er því ljóst að ég held áfram að gera bíómyndir, því get ég lofað þér. Alla vega nokkrar í viðbót, svona áður en þeir senda mig heim.“

Baltasar við tökur á Everest.
Baltasar við tökur á Everest.
mbl.is
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sólveig Pálsdóttir
4
Ragnheiður Gestsdóttir
5
Guðrún frá Lundi

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu ekki einhver aukaatriði leiða þig afvega frá þýðingarmestu hlutunum í áætlun þinni. Vertu undirbúinn fyrir breytingar því þær eru til góðs þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sólveig Pálsdóttir
4
Ragnheiður Gestsdóttir
5
Guðrún frá Lundi

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu ekki einhver aukaatriði leiða þig afvega frá þýðingarmestu hlutunum í áætlun þinni. Vertu undirbúinn fyrir breytingar því þær eru til góðs þegar til lengri tíma er litið.
Loka