Blæðingar bannaðar á Instagram?

Myndin sem Kaur birti á Instagram.
Myndin sem Kaur birti á Instagram. Skjáskot af Instagram

Síðastliðna sólarhringa hefur umræða um geirvörtur kvenna tröllriðið samfélagsmiðlum. Meðal þess sem umræðan beinist að er afhverju geirvörtur kvenna þykja óviðeigandi á samfélagsmiðlum en ekki geirvörtur karla. Geirvörturnar eru þó ekki það eina kvenlega sem ekki má sjást á samfélagsmiðlum því svo virðist sem túrblóð þyki einnig óviðeigandi fyrir augu almennings.

Fyrr í vikunni deildi háskólaneminn Rupi Kaur þessari mynd á Instagram

A photo posted by Rupi Kaur (@rupikaur_) on

 Næsta dag hafði Instagram fjarlægt myndina með þeirri skýringu að hún bryti gegn reglum síðunnar. Myndin er úr ljósmyndaröð sem Kaur gerði með systur sinni sem lokaverkefni fyrir áfanga í háskólanum. Verkefninu mun ætlað að svipta hulu leyndardóms af blæðingum og gera eitthvað sem er náttúrulegt eðlilegt.

Eftir að myndin var tekin út setti Kaur hana aftur inn og benti á að hún bryti í raun ekki gegn uppgefnum reglum Instagram. Í reglunum segir að notendur megi ekki deila efni sem er í annarra manna eigu, sýnir nekt, kynferðislega eða ólöglega hluti eða stuðli að sjálfsskaða og Kaur segir myndina ekki gera neitt slíkt.

Instagram eyddi myndinni aftur og þá deildi Kaur myndinni á Facebook ásamt opnu bréfi til Instagram til að mótmæla að myndin hafi verið tekin út.

„Ég mun ekki biðjast afsökunar á því að stuðla ekki að sjálfsánægju og stolti kvenhatandi samfélags sem vill hafa líkama minn í nærfötum en finnst smávægilegur leki ekki í lagi,“ skrifaði Kaur. Í framhaldinu birti Instagram myndina aftur og bað Kaur afsökunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina