Er líf á Stjörnustríðsplánetum?

Reikistjarnan Tatooine var á braut um tvístirni en menn hafa ...
Reikistjarnan Tatooine var á braut um tvístirni en menn hafa þegar fundið fjarreikistjörnur sem ganga um tvær sólir í alheiminum. Lucasfilm

Í Stjörnustríðsmyndunum er að finna heillandi heima sem hver um sig hefur einkennandi landslag eins og eyðimerkur, skóga, ísbreiður eða fen. Þó að mögulegt sé að hnetti sem líkjast þeim sé að finna í alheiminum er ólíklegt að þeir gætu viðhaldið lífverum, að sögn sérfræðinga í fjarreikistjörnum.

Þeir heimar sem koma við sögu í upphaflega Stjörnustríðsþríleiknum birtast sem hnettir með einsleitt lofts- og landslag. Þannig er heimaveröld Loga geimgengils, Tatooine, eyðimerkurheimur sem gengur á braut um tvístirni, reikistjarnan Hoth þar sem uppreisnarmennirnir fela sig fyrir herjum keisarans er ísveröld og Endor, þar sem þeir hafa endanlegan sigur á keisaradæminu, er þakinn skógi.

Í tilefni af Stjörnustríðsdeginum sem margir fagna 4. maí ár hvert hefur tímaritið Wired fengið sérfræðinga til að velta vöngum um hvort að eitthvað í líkingu við þessa stæði væri mögulega ða finna í óravíddum alheimsins og hvort að líf gæti þrifist þar. 

Þess ber strax að geta að rannsóknir á fjarreikistjörnum eru tiltölulega skammt á veg komnar og því hafa höfundar vísindaskáldskapar enn töluvert svigrúm til að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Hugleiðingar vísindamannanna eru því að miklu leyti vangaveltur.

Raunhæfasta lýsingin á raunverulegum hnetti í Vetrarbrautinni

Tatooine virkar fremur óvineitt lífi. Þar er heitt og þurrt enda gengur reikistjarnan um tvær sólir og fjölskylda Loga geimgengils þarf að vinna raka úr lofti til þess að draga fram lífið. Greg Laughlin, prófessor í stjörnufræði og sérfræðingur í fjarreikistjörnum við Kaliforníuháskóla, segir að það sé algerlega mögulegt að reikistjarna gangi um tvístirni og menn hafi þegar fundið dæmi um það. Svo lengi sem reikistjarnan væri nógu langt frá sólunum tveimur gæti líf vel þrifist þar.

Andrew Johnston, jarðvísindamaður við Loft- og geimsafnið í Bandaríkjunum, segir hins vegar að án vatns væri ólíklegt að reikistjarna eins og Tatooine gæti staðið undir lífi eins og Jawas og Sandfólkinu sem kemur fram í myndunum.

Laughlin segir hins vegar að ef nægilegt vatn væri að finna á Tatooine gæti líf blómstrað þar.

„Ef ég þyrfti að giska, og þetta byggist ekki á neinum vísindum heldur á tilfinningu, þá myndi ég segja að Tatooine væri raunhæfasta lýsingin á heimi í Vetrarbrautinni okkar,“ segir hann.

Hoth líkari jörðinni en margan grunar

Hin hvíta auðn íshnattarins Hoth er einnig raunhæf veröld að mati vísindamannanna. Reikistjarnan sé meira að segja líkari jörðinni en margan grunar.

„Við vitum að það hafa verið nokkur tímabil í sögu jarðarinnar þar sem hún leit svona út, á snjóboltajarðartímabilum, þar sem öll plánetan er ísi lögð,“ segir Laughlin. Aðeins byrji að hlýna aftur þegar nægur koltvísýringur hefur byggst upp í lofthjúpnum og gróðurhúsaáhrifin valda því að ísinn bráðnar með hækkandi hitastigi.

Á þeim tíma var hins vegar aðeins frumstætt líf að finna á jörðinni og stærri dýr eins og wampar [innsk. blm ófreskjan sem ræðst á Loga geimgengil] og tauntaunar [reiðskjótar uppreisnarmannanna] gætu alls ekki þrifist þar enda er engan gróður að finna þar.

Skógarhnöttur ekki mögulegur

Endor var heimili krúttlegu Ewok-bangsanna sem margir létu fara í taugarnar á sér en þar háðu uppreisnarmennirnir og stormsveitir keisarans harða hildi í lok síðustu myndar þríleiksins. Hnötturinn átti að vera tungl gasrisa og var algerlega þakinn skógi.

Johnston segir að heimur eins og Endor væri fræðilega mögulegur ef gasrisinn væri á lífvænlega beltinu í kringum móðurstjörnuna. Ólíklegra væri hins vegar að hnötturinn gæti verið algerlega skógi vaxinn. Á öllum þeim hnöttum sem menn þekkja til eru pólsvæðin kaldari en aðrir hlutar þeirra, nema á Venusi þar sem óðagróðurhúsaáhrif ráða ríkjum.

„Jafnvel í tilfellum eins og Úranusar í sólkerfinu okkar þar sem reikistjarna liggur á hliðinni miðað við sporbrautina eru gríðarlegur breytileiki í loftslagi yfir ár og áratugi sem veldur frekari breytileika og óstöðugleika,“ segir Bruce Betts, forstöðumaður vísinda og tækni hjá Planetary Society.

Lesa má nánar um lífvænleika Stjörnustríðsheimsins í Wired hér

Hoth var íshnöttur sem var líkari jörðinni en margan grunar.
Hoth var íshnöttur sem var líkari jörðinni en margan grunar. Lucasfilm
mbl.is