„Þetta er vissulega annað og meira“

Baltasar Kormákur við tökur á Everest
Baltasar Kormákur við tökur á Everest Jasin Boland

Baltasar Kormákur hefur staðið í ströngu við að kynna nýjustu kvikmynd sína, Everest, að undanförnu en hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fyrir helgi. Hann kveðst á heildina litið ánægður með fyrstu dómana og stoltur af myndinni þegar hann hefur sleppt henni út í óvissuna. 

Þetta er mikill sirkus en mjög gaman meðan á því stendur. Ég hef séð ýmislegt þegar kemur að því að frumsýna kvikmyndir en þetta er vissulega annað og meira. Hátíðirnar í Cannes og Feneyjum eru þekktar fyrir íburð og það er mikill stíll yfir þessu. Ég held að Feneyjahátíðin sé sú elsta í heimi,“ segir glaður en svolítið þreyttur Baltasar Kormákur í símasamtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins frá Feneyjum. Kastljós heimspressunnar hefur heldur betur beinst að honum í vikunni vegna frumsýningar á nýjustu kvikmynd hans, Everest.

– Þannig að það er upplifun út af fyrir sig að koma á Feneyjahátíðina?

„Já, heldur betur. Þetta er öðruvísi en allt sem ég hef tekið þátt í fram að þessu, þó ekki væri nema fyrir þá staðreynd að manni er siglt inn á frumsýninguna.“

Hann hlær.

– Það er augljóslega í mörg horn að líta hjá þér. Geturðu lýst fyrir mér hvernig síðustu dagar hafa verið?

„Stanslaus kynning á myndinni. Heimspressan er hérna í Feneyjum og við þurfum að fara í viðtöl við miðla frá öllum löndum þar sem myndin á eftir að koma út. Ég var búinn að vera í Bandaríkjunum áður, þannig að ameríska pressan er minna hér. Þetta er feikilega mikið umstang. Bæði einkaviðtöl og svo stórir blaðamannafundir með mörghundruð manns. Það eru líka minni blaðamannafundir, þar sem ég er að svara spurningum frá allt að tíu fréttamönnum í einu.“

Að skríða saman

– Hvernig er heilsan eftir þetta allt saman?

„Maður er svona að skríða saman, þakka þér fyrir.“

– Hvernig á þessi partur af starfi leikstjórans við þig, það er að segja hasarinn sem óhjákvæmilega fylgir kynningu myndarinnar?

„Ég get alveg glímt við það enda ýmsu vanur. Ég kann að koma fyrir mig orði og brosa framan í myndavélarnar. Það er ekkert mál, þannig lagað. Ég er nú einu sinni leikaramenntaður. Það er samt ekki það sem ég nýt mín best við. Ég nýt mín best og líður best þegar ég er að vinna og búa til bíómynd. Þá er ég í „elementinu“ mínu. Ég hef engan sérstakan áhuga á að vera stöðugt framan í fólki, ef þannig má að orði komast, og ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að leikstjórn höfðar meira til mín en að leika sjálfur. Þegar kemur að svona kynningum er aðalatriðið að slaka á og vera maður sjálfur.“

– Hvernig gengur það? Það er að segja að vera þú sjálfur í þessum glysgjarna heimi?

„Mér gengur það ágætlega. Ég fer aldrei í manngreinarálit og segi það sem mér finnst. Án þess að vera ókurteis. Ég tala eins við alla, hvort sem þeir vinna fyrir ofan mig eða neðan. Ég held að fólk kunni að meta það. Ég er ekki hræddur við neinn sem er fyrir ofan mig og ber virðingu fyrir öllum sem eru fyrir neðan mig. Enda getur það breyst hratt. Einhver sem er fyrir neðan þig gæti skyndilega verið kominn upp fyrir þig. Það geta verið miklar sviptingar í þessum bransa. Ætli þetta viðhorf sé manni ekki líka í blóð borið, það er engin stéttaskipting á Íslandi.“

– Svo sá bakgrunnur hjálpar þér?

„Ég hugsa það, já.“

Ekki farinn að spá í Óskar

– Einhverjir eru farnir að taka býsna stórt upp í sig, meðal annars gagnrýnendur, og farnir að tala um mögulega tilnefningu til Óskarsverðlauna. Ert þú farinn að hugsa eitthvað í þá átt?

„Nei. Ég er ekkert að spá í það og geri mér engar væntingar. Það bara gerist ef það gerist og yrði bara bónus. Ég geri ekki myndir með verðlaun í huga, hvorki Óskarsverðlaun né önnur. Þá verða þær allar þannig á bragðið.“

– En þú ert eigi að síður mjög ánægður með myndina. Hún er eins og þú vildir hafa hana, ekki satt?

„Jú, ég er mjög stoltur af þessari mynd. Auðvitað er alltaf hægt að pikka í einhver smáatriði, hefði ég haft meiri peninga eða meiri tíma. En það skiptir ekki máli núna. Myndin er tilbúin og ég er stoltur af henni.“

– Sýnist þér hún höfða síður til einhverra hópa en annarra?

„Þetta er náttúrulega mynd um hamfarir og slíkar myndir höfða ekki alltaf til einhverra vitsmunalegra listaspíra. Skilurðu? Þetta er mjög sjónræn mynd og þær eru ekki alltaf dálæti gagnrýnenda. Þetta er stórt bíó. Mynd eins og Perfect Storm fékk ekkert sérstaka dóma en halaði inn peninga. Það er ekki á vísan að róa.“

– Dómar eru líka eitt, aðsókn annað.

„Nákvæmlega. Þetta ferðalag er rétt að byrja og myndin á eftir að fara um allan heim. Spennandi verður að sjá hvernig almenningur tekur henni.“

Spennandi verkefni í boði

– Konan þín, Lilja Pálmadóttir, er með þér í Feneyjum. Eru börnin þín þar líka?

„Nei, skólinn var að byrja þannig að ég vildi ekki trufla þau. Lilja verður með mér áfram en kemur heim aðeins á undan mér. Mig minnir að ég komi heim 18. september til að vera viðstaddur Íslandsfrumsýninguna.“

– Er of snemmt að spyrja hvaða þýðingu Everest kemur til með að hafa fyrir þig sem leikstjóra?

„Það er ómögulegt að meta það. Mér eru að bjóðast mörg spennandi verkefni en það var reyndar orðið þannig áður en Everest kom út. Ef að líkum lætur dregur ekki úr því. Sumir segja að Everest muni opna mér alveg nýjar dyr, til dæmis Hollywood Reporter og Deadline Hollywood, stærsti kvikmyndavefurinn vestra. Við sjáum til. Maður tekur bara eitt skref í einu. Kannski kem ég bara heim og geri næstu mynd.“

– Þú ert þá líklega endanlega kominn á þann stað á þínum ferli að þú getur valið að gera þær myndir sem þú vilt helst gera sjálfur?

„Klárlega. Og mun gera það.“

– Er einhver alvara í því að gera næstu mynd á Íslandi?

„Það getur vel verið. Reyndar mjög líklegt. Ég hef verið að plana að gera mynd sem heitir Eiðurinn sem ég skrifaði handritið að í samvinnu við Ólaf Egil Egilsson. Það er mjög spennandi verkefni. En það eru líka nokkur stór tilboð á borðinu og spurning hvenær ég kemst í að taka ákvarðanir þar um. Þá er verið að vinna í handritum að þremur stórum myndum sem ég hef þegar gert samning um að leikstýra úti. Það eru alltaf einhverjar þreifingar í gangi.“

Breski kvikmyndaframleiðandinn Tim Bevan, ástralski leikarinn Jason Clarke og íslenski …
Breski kvikmyndaframleiðandinn Tim Bevan, ástralski leikarinn Jason Clarke og íslenski leikstjórinn Baltasar Kormakur í Feneyjum í vikunni. AFP
Baltasar Kormákur
Baltasar Kormákur AFP
John Hawkes, Jason Clarke, Emily Watson, Josh Brolin, Baltasar Kormákur …
John Hawkes, Jason Clarke, Emily Watson, Josh Brolin, Baltasar Kormákur og Jake Gyllenhaal AFP
Jake Gyllenhaal og Emily Watson
Jake Gyllenhaal og Emily Watson AFP
Everest
Everest AFP
Baltasar Kormákur og eiginkona hans, Lilja Pálmadóttir, í Feneyjum
Baltasar Kormákur og eiginkona hans, Lilja Pálmadóttir, í Feneyjum AFP
Baltasar sagði tökur á myndinni sennilega vera það erfiðasta sem …
Baltasar sagði tökur á myndinni sennilega vera það erfiðasta sem hann hefði gert. Ljósmynd/Jasin Boland
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur verið of góð/ur við sjálfa/n þig því þú átt erfitt með að ná upp afköstum eftir fríið. Finndu út hvað það er sem þú virkilega vilt.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur verið of góð/ur við sjálfa/n þig því þú átt erfitt með að ná upp afköstum eftir fríið. Finndu út hvað það er sem þú virkilega vilt.