Verður þetta ár DiCaprio?

Leonardo DiCaprio ræðir við blaðamann á frumsýningu The Revenant í ...
Leonardo DiCaprio ræðir við blaðamann á frumsýningu The Revenant í Hollywood í síðasta mánuði. AFP

Leonardo DiCaprio er einn farsælasti leikari heims og spannar ferill þessa 41 árs gamla Bandaríkjamanns tæplega 25 ár. Hann var í vikunni tilnefndur til Óskarsverðlauna í fimmta sinn en hefur aldrei hneppt hnossið. Margir spá því hins vegar að í ár sé „Ár DiCaprio“.

DiCaprio er tilnefndur fyrir besta leik í aðalhlutverki fyrir frammistöðu sína í myndinni The Revenant. Leikarinn sagðist í vikunni vera gífurlega þakklátur fyrir viðbrögðin við myndinni en hún hlaut tólf tilnefningar. Þá hlaut DiCaprio sín þriðju Golden Globe verðlaun síðustu helgi fyrir leik sinn í myndinni.

DiCaprio var fyrst tilnefndur til Óskarsverðlauna árið 1994 fyrir hlutverk sitt í What‘s Eating Gilbert Grape. Þá fór hann með hlutverk þroskahefts bróður persónu Johnny Depp og að margra mati var það hlutverkið sem kom DiCaprio á kortið. Hann var tilnefndur fyrir besta leik í aukahlutverki en Tommy Lee Jones fór heim með styttuna eftirsóttu fyrir hlutverk sitt í The Fugitive.

Ellefu árum seinna eða árið 2005 var DiCaprio aftur tilnefndur. Þá var hann orðinn heimsfræg Hollywood stjarna eftir að hafa slegið í gegn í myndum eins og Titanic, Catch Me If You Can og Gangs of New York. Árið 2005 var DiCaprio tilnefndur fyrir besta leik í aðalhlutverki í myndinni The Aviator. Þar fór hann með hlutverk Howard Hughes en hlaut í lægra haldi fyrir Jamie Foxx, sem var verðlaunaður fyrir frammistöðu sína sem söngvarinn Ray Charles í kvikmyndinni Ray.

Tveimur árum seinna fékk DiCaprio aðra tilnefningu og þá aftur fyrir leik í aðalhlutverki. DiCaprio var tilnefndur fyrir hlutverk sitt sem demantasmyglari í Rhodesíu í myndinni Blood Diamond. En það var Forest Whitaker sem hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni The Last King of Scotland.

DiCaprio var síðan tilnefndur í fjórða sinn árið 2014, fyrir hlutverk sitt sem siðlausi verðbréfasalinn Jordan Belfort í myndinni The Wolf of Wall Street. Þá hafði hann, rétt eins og í ár, fengið Golden Globe-verðlaun fyrir leik sinn í sömu mynd og því voru líkur taldar á því að nú væri loks komið að því. Það var hins vegar Matthew McConaughey sem fékk verðlaunin, fyrir hlutverk sitt sem alnæmissjúklingurinn Ron Woodroof í Dallas Buyers Club.

Þar sem DiCaprio er einn þekktasti leikari samtímans hefur það verið viðfangsefni háðfugla á netinu að leikarinn hafi aldrei hlotið Óskarsverðlaun. „Eitt sem ég lærði fyrir löngu er að maður stjórnar því ekki,“ sagði DiCaprio eitt sinn þegar að blaðamaður spurði hann hversu mikið hann vildi fá Óskarsverðlaun fyrir leik sinn i myndinn Wolf of Wall Street. „Eina sem maður getur gert er að reyna sitt besta.“

Það eru til endalausar myndir á netinu sem gera grín ...
Það eru til endalausar myndir á netinu sem gera grín að þeirri staðreynd að DiCaprio hafi ekki fengið Óskarsverðlaun. Þetta er ein þeirra.

The Revenant gerist árið 1823 í fjalllendi Montana og Suður-Dakota í Bandaríkjunum og fer DiCaprio með hlutverk veiðimannsins Hugh Glass. DiCaprio hefur lengi verið þekktur fyrir að leggja sig allan fram í hlutverkum sínum og er þetta hlutverk engin undantekning. Við tökurnar á myndinni þurfti DiCaprio að borða hráa vísundalifur og vaða í jökulvatni. Veiktist hann mörgum sinnum við gerð myndarinnar en nú virðist sem það hafi allt verið þess virði.

Blaðamaður Vanity Fair lýsti því t.d. yfir í nóvember að nú þyrfti DiCaprio einfaldlega að fá verðlaunin og blaðamaður GQ sagði í vikunni að DiCaprio væri búinn að vinna sér styttuna inn. 

Hvort DiCaprio fær loksins gulllitaða manninn með sér heim kemur þó ekki í ljós fyrr en 28. febrúar næstkomandi, þegar Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles.

Leikstjóri The Revenant, Alejandro González Iñárritu stillir sér upp ásamt ...
Leikstjóri The Revenant, Alejandro González Iñárritu stillir sér upp ásamt DiCaprio eftir Golden Globe verðlaunin á sunnudaginn. Iñárritu var verðlaunaður fyrir bestu kvikmynd og leikstjórn en DiCaprio fyrir besta leik í aðalhlutverki. AFP
mbl.is