Eignir Bowies metnar á 13 milljarða

David Bowie ásamt eiginkonu sinni Iman.
David Bowie ásamt eiginkonu sinni Iman. AFP

Eignir tónlistarmannsins Davids Bowies eru metnar á um 100 milljónir dala, jafnvirði 13 milljarða króna. Þetta kemur fram í erfðaskrá Bowies sem hefur verið birt fyrir dómi í New  York. Eiginkona hans, Iman, mun erfa helminginn auk íbúðar sem þau eiga í New York. 

Sonur og dóttir Bowies munu svo erfa hinn helming auðæfanna. Bowie lést 10. janúar sl., en banamein hans var krabbamein.

Í erfðaskránni kemur ennfremur fram, að Bowie hafi farið fram á að ösku hans yrði dreift á Balí samkvæmt helgiathöfn búddista.

Erfðaskráin var skráð á skírnarnafn tónlistarmannsins, David Robert Jones, að því er segir á vef BBC.

Þá segir að aðstoðarkona Bowies, Corinne Schwab, fái tvær milljónir dala í sinn hlut, jafnvirði 260 milljóna króna og þá rennur ein milljón dala til fyrrverandi barnfóstru hans, Marion Skene.

mbl.is