Aðgerðasinninn Beyoncé stígur fram

Í nýjasta lagi sínu bregður Beyoncé sér í hlutverk aðgerðarsinnans ...
Í nýjasta lagi sínu bregður Beyoncé sér í hlutverk aðgerðarsinnans og fagnar m.a. uppruna sínum og svartri fegurð. AFP

Tónlistarkonan Beyoncé hefur á augabragði umbreyst úr poppkúltúr-drottningu í gallharðan aðgerðarsinna, með útgáfu lagsins Formation og ekki síður tónlistarmynbandsins sem fylgir. Í verkinu tekur söngkonan afstöðu gegn lögregluofbeldi og lofsyngur svarta fegurð, en fram til þessa hefur farið fremur hljótt um aðkomu hennar að Black Lives Matter-hreyfingunni.

Hin 34 ára súperstjarna er ekki endilega þekkt fyrir að flagga skoðunum sínum, þótt hún sé t.d. yfirlýstur femínisti. Síðastliðin ár hefur hún sjaldan gefið kost á viðtölum en líkt og hennar er von og vísa kom hún nýjustu skilaboðum sínum á framfæri á sviði, í þetta sinn fyrir framan 111 milljón áhorfendur Ofurskálarinnar bandarísku.

Beyoncé og eiginmaður hennar Jay Z eru metin á um milljarð bandaríkjadala en í Formation hreykir hún sér ekki bara af afrekum sínum, heldur segist á sama tíma trú uppruna sínum. Hún lýsir sér m.a. sem „tilvonandi svörtum Bill Gates“.

Earned all this money but they never take the country out of me / I got hot sauce in my bag, swag," syngur dívan, sem á rætur sínar að rekja til Louisiana og Alabama.

„Hættið að skjóta okkur“

Í myndbandinu eru dregnar upp myndir af veruleika og baráttu svartra, ekki síst dauðsföllum svartra karla af höndum lögreglu síðastliðin tvö ár, sem voru kveikjan að Black Lives Matter-hreyfingunni.

Það myndbandsbrot sem þykir hvað mest sláandi sýnir ungan dreng dansa fyrir framan lögreglu í óeirðarbúninum. Seinna setja lögreglumennirnir hendurnar upp í loft, líkt og fólk sem verið er að handtaka, en á vegg stendur „krotað“: Hættið að skjóta okkur.

Myndbandið gerist í New Orleans og sést Beyoncé m.a. syngja á þaki lögreglubifreiðar sem er að sökkva í vatn, en um er að ræða tilvísun til þeirrar gagnrýni sem yfirvöld sættu í kjölfar fellibylsins Katrinu, sem lagði borgina í rúst árið 2005 og varð 2.000 að bana. Hátt hlutfall látinna voru svartir.

Þá sést dagblað með mynd af Martin Luther King Jr. undir fyrirsögninni „Meira en draumóramaður“, þar sem vísað er til frægrar ræðu King frá 1963.

„I like myn Negro nose with Jackson Five nostrils,“ syngur Beyoncé og mærir einnig náttúrulegt afrískt hár á sama tíma og dóttir hennar Blue Ivy kemur í mynd.

Hörð gagnrýni

Formation leit dagsins ljós á sama tíma og sá mánuður hófst í Bandaríkjunum sem kenndur er við sögu svartra. Margir voru fljótir að gagnrýna sviðsframkomu Beyoncé á Ofurskálinni, þar sem hún og dansarar hennar komu fram í svörtum leðurgöllum og lyftu hnefum á loft líkt og meðlimir Black Panther Party voru þekktir fyrir að gera.

Meðlimum National Sherriff's Association, sem sóttu ráðstefnu á hóteli í Washington þegar Ofurskálin fór fram, blöskraði svo mikið að þeir lækkuðu í sjónvarpinu á meðan atriði Beyoncé stóð yfir og sneru í það baki.

Þá sagði Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, að tónlistarkonan hefði betur einbeitt sér að því að efla virðingu fyrir lögreglunni í Bandaríkjunum.

„Þetta er fótbolti, ekki Hollywood, og mér fannst hneykslanlegt að hún skyldi nota [Ofurskálina] sem vettvang til að ráðast gegn lögreglumönnum sem eru það fólk sem verndar hana og okkur, og halda okkur á lífi,“ sagði repúblikaninn.

Mörgum þótti Beyoncé fremur vígaleg á vellinum og sætti hún ...
Mörgum þótti Beyoncé fremur vígaleg á vellinum og sætti hún m.a. gagnrýni frá fyrrverandi borgarstjóra New York sem sagði að söngkonan ætti heldur að einbeita sér að því að auka virðingu fyrir laganna vörðum. AFP

Margir áttu þó ekkert nema fallegt að segja um framlag stjörnunnar. Þeirra á meðal var Opal Tometi, einn stofnenda Black Lives Matter-hreyfingarinnar, sem minnti á að Ofurskálina hefði borið upp á afmælisdegi Söndru Bland. Bland fannst hengd í fangaklefa í Texas undir umdeildum kringumstæðum eftir að hafa verið stöðvuð vegna umferðarlagabrots.

Beyoncé og Jay Z eru þekktir stuðningsmenn Barack Obama og þá hafa fregnir borist af því að þau hafi varið þúsundum dala til að greiða tryggingargjald einstaklinga sem hafa verið handteknir í mótmælum gegn lögregluofbeldi.

Tíminn mun leiða í ljós hvort þau hyggjast bregða sér oftar í hlutverk aðgerðasinnans á opinberum vettvangi en Beyoncé hefur tilkynnt um 40 tónleika ferðalag um Norður-Ameríku og Evrópu undir nafninu Formation.

mbl.is