Skrýtið að kalla sig „talent“

Ragnar Snorrason var valinn úr hópi 2000 umsækjenda til að ...
Ragnar Snorrason var valinn úr hópi 2000 umsækjenda til að taka þátt í vinnustofu kvikmyndagerðamanna á Berlinale, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni, sem fram fer í Berlín þessa dagana. Ljósmynd/Af Facebook síðu Ragnars Snorrasonar

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Ragnar Snorrason er staddur á Berlinale, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Berlín, um þessar mundir. Hann hefur þó lítinn tíma til að horfa á myndirnar sem taka þátt á hátíðinni þar sem hann var valinn úr hópi 2000 umsækjenda til að taka þátt í Berlinale Talents. Um er að ræða vinnustofu þar sem hann nýtur aðstoðar fagfólks við að leggja lokahönd á handrit að nýrri stuttmynd.

„Það er mjög skrítið að kalla sjálfan sig „talent,“ segir Ragnar og skellir upp úr þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum á milli fyrirlestra. Þátttakendur í vinnustofunum kallast „talents“ sem er líklegast það samheiti sem á best við þá, enda búa þátttakendurnir yfir ýmsum hæfileikum í kvikmyndageiranum og samanstanda meðal annars af leikstjórum, handritshöfunum, framleiðendum og hljóðvinnslumönnum. Ragnar tekur nú þátt í hátíðinni í annað sinn, en hann var einnig hluti af Talent hópnum árið 2011.

Ragnar lærði kvikmyndagerð í Kvikmyndaskóla Ísland og hefur leikstýrt fimm stuttmyndum, ýmist í tengslum við nám sitt eða sjálfstæðum verkefnum eftir útskrift. Hann hefur lítið látið á sér kræla síðastliðin þrjú ár en vinnur nú að nýrri stuttmynd.

Ragnar er staddur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín þar sem ...
Ragnar er staddur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín þar sem hann tekur þátt í vinnustofu handritshöfunda. Hann hefur því lítinn tíma til að horfa á allar kvikmyndirnar, annað en Meryl Streep, sem er formaður dómnefndar í ár. AFP

„Fínt að hitta klárara fólk en maður sjálfur“

„Ég er að detta í gírinn aftur og ætla mér stærri hluti en áður,“ segir Ragnar. Í vinnustofunni hefur hann aðgang að svokölluðum handritalækni (e. script doctor) sem aðstoðar við fínpússun á handriti, en Ragnar er með eitt slíkt nánast fullbúið.

Ragnari var boðið að taka þátt í vinnstofunni í ár, en árlega taka á bilinu 200-300 manns þátt í mismunandi vinnustofum. „Einhverjir eru að vinna í heimildarmyndum, aðrir í kvikmyndum í fullri lengd og svo eru vinnustofur fyrir leikara ásamt fleirum,“ segir Ragnar, sem tekur sjálfur þátt í vinnustofu fyrir stuttmyndir í þróun.

„Sú vinnustofa hentar mér best þar sem ég er með handrit í umsóknarferli hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Mig langaði að skerpa aðeins á því og það er því fínt að að hitta fólk hérna sem er klárara en maður sjálfur til að fínpússa handritið,“ segir Ragnar.

Ragnar í tökum við öskufallið í Eyjafjallajökli árið 2010.
Ragnar í tökum við öskufallið í Eyjafjallajökli árið 2010. Ljósmynd/Af Facebook síðu Ragnars Snorrasonar

Hugmyndin kviknaði á Stuðlum

Ásamt kvikmyndagerðinni starfar Ragnar sem ráðgjafi á meðferðarstöðinni Stuðlum og þar spratt hugmyndin að handriti stuttmyndarinnar. „Ég starfa með börnum og unglingum sem stríða við alls kyns vandamál, allt frá hegðunarvandamálum til fíkniefnavanda.“

„Þó að ég trúi alveg á kerfið þá finn ég að mesti lækningamátturinn kemur að miklu leyti frá manni sjálfum, ekki endilega fólkinu í kring, þó svo að stuðningurinn sé mikilvægur,“ segir Ragnar. Handritið varpar því ljósi á hvernig hægt er að takast á við hinar ýmsu aðstæður upp á eigin spýtur, óháð aldri.

Stuttmyndin segir frá lítilli stúlku sem hefur nýlega misst bróður sinn í bruna. „Við hittum hana þar sem hún er á leiðinni í barnaafmæli hjá bekkjarsystkini sínu í fylgd föður síns sem er staðráðinn í að láta hana upplifa venjulegan dag. Stúlkan neitar hins vegar að tala við nokkurn mann og taka þátt í leikjum. Í afmælinu leika krakkarnir sér í feluleik en í stað þess að taka þátt í leiknum lætur stúlkan sig hverfa og leitar uppi draug bróður síns. Í gegnum þann barnaleik tekur hún stór og fullorðinsleg skref í að sætta sig við dauða hans,“ segir Ragnar.

Tökur á myndinni fara fram í sumar og vonast Ragnar eftir því að geta unnið sem mest á Íslandi með íslenskum leikurum og tökuliði. „Ég geng að rosa góðum hóp heima og mig langar að vinna með því góða fólki sem ég hef unnið með áður.“ Ragnar vonast eftir að myndin verði tilbúin til sýningar í haust.

„Næ vonandi að sjá eina mynd áður en ég fer heim“

Berlinale hófst 11. febrúar og lýkur um helgina. Ragnar kom til Berlínar 12. febrúar en hefur einungis náð að sjá eina mynd, enda upptekinn í vinnustofum og á fyrirlestrum.

„Það er mjög þétt prógramm hérna og þó að við séum hvött til að fara á myndirnar þá bara gefst ekki tími fyrir það, þetta er fyrst og fremst vinna. En maður hefur alltaf tíma til að horfa á þessar myndir seinna. En ég næ vonandi að sjá eina áður en ég fer heim á föstudaginn,“ segir Ragnar. Fyrst ætlar hann að kynna sína eigin mynd fyrir framleiðendum, fjárfestum og dreifingaraðilum sem staddir eru á Berlinale.

mbl.is