Adele var stjarna kvöldsins

Adele
Adele AFP

Brit-verðlaunin fóru fram í O2 tónleikahöllinni í Lundúnum í kvöld. Stjarna kvöldsins var án efa Adele sem fór heim með fern verðlaun. Með sigrinum í kvöld varð Adele sá listamaður sem hlotið hefur flest verðlaun á einu ári síðan að breska sveitin Blur sló í gegn árið 1995.

Á síðasta ári gaf Adele út þriðju plötu sína, 25, og hefur hún vægast sagt slegið í gegn. Í kvöld hlaut Adele verðlaunin fyrir besta breska listamanninn og nýtti tækifærið og lýsti yfir stuðningi við bandarísku söngkonuna Kesha en hún stendur nú í lagadeilum við útgáfufélagið Sony og upptökustjóra sem hún hefur sakað um kynferðislegt ofbeldi.

Fyrri frétt mbl.is: Föst milli steins og sleggju

Adele hlaut einnig verðlaun fyrir lagið Hello. Hún virtist eiga erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum þegar hún hlaut þriðju verðlaunin, þá fyrir árangur sinn á heimsvísu.

„Ekki slæmt fyrir stelpu frá Tottenham sem er ekki hrifin af því að ferðast í flugvél,“ sagði söngkonan.

Adele
Adele AFP

Fjórðu verðlaun Adele voru fyrir bestu bresku plötuna og sigraði hún listamennina Coldplay, Florence + The Machine, James Bay og Jamie XX. Þegar hún tók á móti verðlaununum þakkaði hún aðdáendum sínum og baðst afsökunar á því að hafa blótað í sjónvarpi.

Adele kláraði kvöldið með því að flytja lag sitt When We Were Young.

Breska sveitin Coldplay var valin besta breska hljómsveitin í fjórða skiptið og tileinkuðu þeir verðlaunin öllum þeim tónlistarmönnum sem búa í flóttamannabúðum. Poppsveitin One Direction fékk verðlaun fyrir besta myndbandnið við lagið Drag Me Down en sigurvegarar þeirra verðlauna voru valdir með kosningu almennings.

Breska sveitin Coldplay tekur á móti sínum verðlaunum.
Breska sveitin Coldplay tekur á móti sínum verðlaunum. AFP

David Bowie, sem lést í síðasta mánuði, fékk svokölluð „Goðsagnarverðlaun“ en vinur hans, leikarinn Gary Oldman tók á móti þeim. Söngkonan Lorde flutti síðan syrpu með helstu lögum Bowie.

Gary Oldman tekur á móti verðlaunum David Bowie.
Gary Oldman tekur á móti verðlaunum David Bowie. AFP

Justin Bieber hlaut verðlaun fyrir besta alþjóðlega karlkyns listamanninn og Björk okkar Guðmundsdóttir fyrir besta kvenkyns listamanninn. Þegar að Bieber tók við verðlaununum sagði hann þau sýna að „lífið væri ferðalag“ og að allir „ættu góða daga og slæma.“

Bieber tróð upp.
Bieber tróð upp. AFP

Fyrri frétt mbl.is: Björk hlaut Brit-verðlaunin

Justin Bieber fékk verðlaun í kvöld.
Justin Bieber fékk verðlaun í kvöld. AFP
Rihanna tróð upp ásamt rapparanum Drake
Rihanna tróð upp ásamt rapparanum Drake AFP
mbl.is