Mun Kim biðja um skilnað?

Kim og Kanye.
Kim og Kanye. AFP

Slúðurmiðlar vestanhafs greindu frá því í gær að raunveruleikastjarnan Kim Kardashian ætli að skilja við eiginmann sinn Kanye West. Kardashian sást í gær á ferðinni án giftingahringsins en hún og West gengu í hjónaband í júní 2014.

Uppi hafa verið sögusagnir um að samband West og Kardashian hafi verið á brauðfótunum síðustu mánuði, sérstaklega eftir að West fór að tjá sig opinskátt á Twitter og m.a. biðja Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook um peninga.

Slúðurmiðillinn Radar Online birti í dag myndir sem sýndu Kardashian án hringsins í Los Angeles. Á hún að hafa sýnt ljósmyndurum vel og vandlega að á vinstri hendi hennar væri enginn giftingarhringur.

Skjáskot af Radar Online

Að sögn heimildarmanns  tímaritsins In Touch Weekly greindi Kardashian móður sinni, Kris Jenner, frá því að hún þyrfti að skilja við West. „Hún á mjög erfitt með þetta en sér ekkert annað í boði,“ sagði heimildarmaðurinn.

Í grein In Touch kom fram að hegðun West á tískuvikunni í New York hefði verið síðasta hálmstráið fyrir Kardashian. Á West að hafa látið öllum illum látum á Waldorf Astoria-hótelinu og skammaðist Kardashian sín fyrir eiginmanninn. Á hann m.a. að hafa öskrað „Ég er Kanye West og konan mín er Kim f**king Kardashian“.  

Kardashian og West eiga tvö börn saman, North og Saint. North fæddist í júní 2013 og nokkrum mánuðum seinna bað West Kardashian. Þau gengu í það heilaga í maí 2014 á Ítalíu.

mbl.is