Sniðgangi Eurovision að ári

Sigurvegari keppninnar, hin úkraínska Jamala.
Sigurvegari keppninnar, hin úkraínska Jamala. AFP

„Já!!! Öll Úkraína sendir þér einlægar þakkir, Jamala,“ tísti Petro Poroshenko, forseti  Úkraínu, eftir að ljóst var að framlag Úkraínu, 1944, hefði farið með sigur af hólmi í Eurovision í ár. Sagði hann frammistöðu söngkonunnar hafa verið ótrúlega.

Frétt mbl.is: Úkraínskur sigur í Eurovision

Lagið fjallar um reynslu söngkonunnar það ár sem þúsundir Tatara voru gerðir útlægir á Krímskaga. Reglur keppninnar banna lög sem eru pólitísk með opinskáum hætti. Lag Jamölu var hleypt í gegn þar sem það hefur sögulega vísun.

BBC greinir frá því að margir Rússar séu ósáttir og segja að atkvæðagreiðslan hafi verið pólitísk, þ.e. að Evrópubúar hafi að einhverju leyti hunsað rússneska framlagið. Þingmaðurinn Frantz Klintsevitch lagði til í samtali við rússneskan fjölmiðil að landið sniðgangi keppnina á næsta ári þegar hún verður haldin í Úkraínu.

Dómnefnd Rússland gaf framlagi Úkraínu ekkert stig og öfugt. Almenningur virtist vera hrifnari af lögunum og gáfu löndin hinu landinu svipaðan fjölda stiga.

mbl.is

Bloggað um fréttina