Nevermind 25 ára gömul

Umslag plötunnar Nevermind með Nirvana.
Umslag plötunnar Nevermind með Nirvana.

Fyrir 25 árum sneri nakið barn sem var að kafa eftir dollaraseðli öllu á annan endann í tónlistarheiminum og platan Nevermind með Nirvana, með ljósmyndinni af barninu framan á umslaginu, varð að hljóðrás heillar kynslóðar.

Nevermind kom út á þessum degi í september árið 1991 og varð til þess að forsprakki Nirvana, söngvarinn Kurt Cobain, lenti í hvirfilbyl sem hann komst ekki lifandi út úr.

Þegar platan kom út var Nirvana lítt þekkt rokksveit sem hafði gefið út sína fyrstu plötu, Bleach, hjá indífyrirtækinu Sub Pop.

„Hármetall“ réð lögum og lofum

Á þessum tíma réð svokallaður „hármetall“ lögum og lofum í rokkinu með sveitir á borð við Guns N´Roses í fararbroddi þar sem blásið hár og löng gítarsóló voru aðalmálið.

Velgengni Nevermind kom útgáfurisanum Geffen, sem gaf plötuna út, í opna skjöldu. Þar skemmdi ekki fyrir tónlistarmyndbandið við lagið Smells Like Teen Spirit sem var spilað hvað eftir annað á sjónvarpsstöðinni MTV.

40 þúsund eintök

Fyrirtækið pantaði upphaflega 40 þúsund eintök af plötunni en svo fór að ein milljón eintaka seldist á fyrstu sex vikunum, hvorki meira né minna.  

Til að anna eftirspurninni varð Geffen að fresta útgáfum á öðrum plötum til að nægt pláss væri til framleiðslu plötunnar. Nevermind átti eftir að seljast í 30 milljónum eintaka úti um allan heim.

Gruggbylgjan mikla

Á næstu mánuðum á eftir uppgötvuðu rokkarar grunge-tónlistarstefnuna þar sem Nirvana var í fararbroddi.

Unglingar úti um allan heim söfnuðu hári eins og Cobain, gengu í skógarhöggsmanna-skyrtum og létu sig dreyma um Seattle, höfuðborg Washington-ríkis, vöggu gruggsins.

X-kynslóðin, sem milljónir ungmenna tilheyrðu, hafði vaxið úr grasi í skugga þeirra sem höfðu fæðst eftir síðari heimsstyrjöldina. Þessi kynslóð var óánægð með stöðu samfélagsmála á níunda áratugnum og var sjálf í mikilli með óvissu með efnahag sinn. Skyndilega hafði hún uppgötvað nýja og kærkomna rödd.

„Nevermind kom á hárréttum tíma,“ skrifaði Michael Azzerrad í bókinni Come As You Are: The Story of Nirvana.

„Þetta var tónlist eftir og fyrir ungt fólk sem horft hafði verið framhjá, það hafði verið hunsað eða talað niður til þess.“

Kurt Cobain á frægum órafmögnuðum tónleikum í New York.
Kurt Cobain á frægum órafmögnuðum tónleikum í New York. AFP

Niðursveifla Cobain

Kurt Cobain átti erfitt með að fóta sig í sviðsljósinu og umfjöllun slúðurblaða um hann og eiginkonu hans, söngkonuna Courtney Love, fór sérlega illa í hann.  

Hann var einnig óánægður með að sjá þungarokksaðdáendur á meðal aðdáenda hans því sjálfur hafði hann gagnrýnt ímynd karlmennskunnar sem þar var allsráðandi og auglýsingamennskuna sem hann tengdi við tónlistarstefnuna.

Einnig upplifði hann höfnun úr röðum pönkaðdáenda, þar sem rætur hans lágu einmitt. Þeim fannst Nirvana hafa svikið pönkrætur sínar með gríðarlegri velgengni sinni.

Cobain fór á bólakaf í eiturlyfjaneyslu, varð þunglyndur og ætlaði meira að segja að láta næstu plötu Nirvana heita I Hate Myself and Want to Die.

Platan fékk á endanum nafnið In Utero og kom út í september 1993. Sex mánuðum síðar, 5. apríl 1994, framdi Cobain sjálfsvíg með því að skjóta sig í höfuðið.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant