Skandinavískur spennutryllir á hvíta tjaldið

Anton er spenntur fyrir frumsýningu á annarri stórmynd sinni, Grimmd.
Anton er spenntur fyrir frumsýningu á annarri stórmynd sinni, Grimmd. Ljósmynd/Ása Ottesen

Kvikmyndarinnar Grimmdar má vænta í bíóhús þessa lands þann 21. október næstkomandi en myndin er sannkallaður skandinavískur spennutryllir. Handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar er Anton Sigurðsson og óhætt að segja að hann stefni hátt í heimi kvikmyndanna. Hann er með ýmislegt í pípunum en fyrst ætlar þessi nýbakaði faðir að njóta tilverunnar með fjölskyldunni í barneignarleyfi. 

Anton Sigurðsson er ekki orðinn þrítugur en frumsýnir þó sína aðra kvikmynd í fullri lengd eftir tvær vikur. Anton skrifaði handritið að Grimmd og leikstýrir henni líka. „Ég er búinn að vera að vinna að þessari mynd í fimm ár. Handritið er innblásið af þremur mjög ólíkum sögum sem tengjast,“ segir Anton en áður skrifaði hann myndina Grafir og bein frá árinu 2014 með þeim Nínu Dögg Filippusdóttur og Birni Hlyni Haraldssyni í aðalhlutverkum.

Grimmd fjallar um tvær ungar stúlkur sem hverfa sporlaust af leikvelli í Árbænum og finnast látnar í Heiðmörk. Tveir reyndustu rannsóknarlögreglumenn landsins vinna af kappi við að leysa málið en gömul mál úr fortíð fara að flækjast í málið og gera það erfiðara.

Pétur Óskar Sigurðsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Sveinn Ólafur fer …
Pétur Óskar Sigurðsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Sveinn Ólafur fer með hlutverk rannsóknarlögreglumanns.

Að sögn Antons gekk prufusýning á Grimmd á dögunum vonum framar. „Konstantín Mikhaelsson, yfirmaður kvikmyndadeildar Senu sem framleiðir myndina, sagði í viðtali að hann spáði því að þetta yrði með stærri myndunum í ár. Eftir að þeir sáu myndina var allt gefið í, sem er bara frábært. Það hefur ekki verið svona mynd í bíó síðan Mýrin var sýnd. Þetta hefur allt verið mikið í sjónvarpi, Ófærð, Hraunið, Réttur og fleira, en ekki í bíó.“

Myndin fer síðan á flakk strax eftir áramót og verður sýnd á nokkrum kvikmyndahátíðum. „Flottar A-lista kvikmyndahátíðir munu sýna myndina og förum við strax í það í janúar en við getum ekki greint frá því hvaða hátíðir það verða, að svo stöddu. Í rauninni erum við bara að leggja lokahönd á myndina eins og stendur. Hún verður ekki alveg 100% tilbúin fyrr en nokkrum dögum fyrir frumsýningu.“

Heppni að fá Margréti

„Margrét Vilhjálmsdóttir fer með aðalhlutverkið í myndinni. Hún hefur ekki leikið í íslenskri kvikmynd í fullri lengd síðan 2010 og að mínu mati er hún okkar besta leikkona. Upprunalega var aðalhlutverkið skrifað fyrir karlmann en svo þegar Margrét Vilhjálmsdóttir var laus, þá breytti ég yfir í kvenmann.“ Anton segist afar heppinn að hafa fengið Margréti til liðs við sig. „Kona í aðalhlutverki er eitthvað sem gerist alltof sjaldan hér. Þrjú stærstu hlutverkin í Grimmd eru allt konur, þær Margrét Vilhjálmsdóttir, Salóme Gunnarsdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir. Það þykir örugglega sjaldgæft, sér í lagi þegar handritið er skrifað af 29 ára gömlum manni. Fyrir mína parta finnst mér að við séum að verða sífellt meðvitaðri um það að fá fleiri konur í kvikmyndagerð og leik. Þetta hefur verið afar karllægur heimur en nú eru konurnar alltaf að verða fleiri. Það eru til dæmis margir flottir kvenleikstjórar að gera myndir núna, ýmist að hefja tökur eða klára. En það má auðvitað alltaf gera betur.“

Lögreglan veitti ráð

Við vinnslu myndarinnar fékk teymið að nýta sér viskubrunn lögreglunnar og skoða hvernig rannsóknir og yfirheyrslur færu fram. „Við fengum að sjá yfirheyrslu sem við gerðum svo eftir fyrir myndina. Einnig fengum við að fara yfir málin með meinatækni og sjá hvernig þeir rannsaka bíla og hvað allt er gert með mikilli nákvæmni. Mér fannst það mjög áhugavert,“ segir Anton. „Ég bar virðingu fyrir lögreglumönnum áður en enn meira eftir þessa heimsókn. Þeir eru mjög klárir í sínu starfi og í rauninni er þetta afskaplega vanmetið starf. Það ótrúlega margt sem þeir þurfa að vita og sjá, öll smáatriðin og allt saman. Þetta var magnað.“

Kappsfullur krakki

Anton er Hafnfirðingur í húð og hár og segir umhverfið sem hann ólst upp í hafa haft mikil áhrif á það hvar hann er staddur í dag. „Ég ólst upp í þannig hverfi. Allir vinir mínir eru á kafi í íþróttum og með háleit markmið. Pabbi minn átti mjög ungur stóra lögfræðistofu. Ég ólst bara upp við það að kýla á hlutina,“ segir Anton sem ólst upp í Setberginu í Hafnarfirði. „Ætli skólinn hafi ekki átt stóran þátt í þessu. Það voru allir að keppast um að vinna hæfileikakeppnirnar, allir að keppast um að vera bestir í íþróttum. Ég var mjög kappsfullur krakki.“ Anton útskrifaðist úr Kvikmyndaskólanum árið 2011 og stofnaði fyrirtæki sitt Virgo films í byrjun þessa árs.

„Það blundaði í mér fyrst að vera leikari. Ég man bara að ég horfði á bíómyndir sem krakki, benti á aðalleikarann og hugsaði með mér að ég ætlaði að vera eins og þessi. Afi minn benti mér síðan á og útskýrði fyrir mér að það væri maður þarna á bakvið sem byggi þetta allt saman til. Að það væri einhver sem skrifaði handrit, leikstýrði og gerði að veruleika. Ég fékk svolítið kvikmyndalegt uppeldi hjá honum en bókmenntalegt hjá móður minni. Það voru svo þessir tveir heimar sem sameinuðust. Um leið og ég vissi að það væri hægt að búa þetta til þá leiddist ég út í það.“

Kvikmyndaskólinn flottur skóli

Anton hælir Kvikmyndaskólanum og hvetur fólk með kvikmyndabakteríuna til að sækja skólann. „Þetta snobb í fólki að fara til útlanda í skóla er bara bull, gerðu þetta bara hérna heima. Það sem skiptir mestu máli er hvað kemur frá þér. En að sjálfsögðu, ef fólk kemst í flotta skóla erlendis þá er það auðvitað flott, en við megum ekki vanmeta Kvikmyndaskólann okkar. Þetta er flottur skóli með góðum kennurum.“

Anton segist sjálfur hafa stefnt á nám erlendis en efnahagshrunið hafi sett ákveðið strik í reikninginn, en hann sér ekki eftir því í dag.

„Kvikmyndagerð á vel við mig og það er gaman hvað starfið er fjölbreytt. Ég man til dæmis einn virkilega erfiðan dag í tökum á myndinni. Það voru allir einhvernveginn illa stemmdir, allir öskrandi og æpandi hver á annan, maturinn var mjög vondur og allir að kvarta yfir því. Við vorum búin að vera í tökum nokkra daga í röð og þetta voru allt mjög langir dagar. Það gekk sem sagt allt á afturfótunum. Á þessum tímapunkti vorum við á leið í senu, við mætum síðan í senuna og hún verður sú flottasta í myndinni. Það bara einhvernveginn small allt saman. Mér þykir mjög vænt um þennan dag og hann lýsir í rauninni starfinu mjög vel.“

Stúlkubarn kom í júlí

Anton eignaðist sitt fyrsta barn í sumar með sambýliskonu sinni Ásu Ottesen, markaðsfulltrúa Te og kaffi. Ása ól þeim stúlkubarn og fékk hún nafnið Yrsa. Eftir allt stúss í kringum kvikmyndina segist Anton ætla að njóta með stúlkunum sínum í barneignaleyfi.

„Ég varð í rauninni tvöfaldur faðir á þessu ári, Yrsa og kvikmyndin. Það gengur æðislega vel með Yrsu, sem varð þriggja mánaða gömul í vikunni. En maður hefur auðvitað ekkert til að miða við, enda fyrsta barn,“ segir Anton. Aðspurður hvort það hafi ekki verið ögn öðruvísi að fylgja myndinni eftir, sem fjallar um hvarf lítilla stúlkna, eftir að hann varð faðir svarar Anton því játandi. „Jú, algjörlega. Ég er ekki svo viss um að ég hefði ráðist í þessa mynd eftir að ég varð faðir. Maður er orðinn miklu mýkri maður, það er alveg magnað. Ása var líka ólétt meðan ég var í tökum og það var erfitt. Það var mikið álag á öllum. En ég fékk fullan stuðning frá henni sem ég er afskaplega þakklátur fyrir. Hún sér um markaðsmál fyrir myndina og hefur skemmtilegar skoðanir á bíómyndum líka. Hún kom t.d. með nokkra góða punkta fyrir myndina sem ég tók til greina. Gott að fá hennar sjónarhorn.“

Fleiri bíómyndir í bígerð

Anton segist vera með ýmislegt í pípunum en ætli fyrst að eyða tíma með fjölskyldunni áður en hann sökkvir sér enn á ný í frekari vinnu. „Við erum með nokkur handrit tilbúin. Það er margt áhugavert sem mig langar að gera en ég veit ekki hvað af því verður. Ég er viss um að þegar ég kem ferskur tilbaka mun ég átta mig á því hvað tekur við,“ segir Anton að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant