Busta Rhymes forvitnast um Aldrei fór ég suður

Aldrei fór ég suður.
Aldrei fór ég suður. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, fékk nýlega póst frá umboðsstofu tónlistarmannsins Busta Rhymes þar sem bent var á að hann væri laus til bókunar og spurt hvort forsvarsmenn hátíðarinnar væru áhugasamir. Í samtali við mbl.is segir Kristján að þótt væntanlega sé um staðlaða fyrirspurn að ræða sé það ákveðin upphefð að tónlistarhátíð í veiðafærageymslu sé komin á slíka lista. Þótt hann telji ólíklegt að eitthvað verði af tilboðinu segist hann ekki vilja útiloka neitt og ætlar að senda kveðju og boð í plokkfiskveislu.

Kristján segir að hátíðin búi við þær lúxusaðstæður, sem einnig sé visst vandamál, að framboð listamanna sé langt umfram eftirspurnina, þar sem aðeins séu um 12 atriði á dagskrá hvers árs. Þar sem einnig sé ókeypis á hátiðina sé erfitt að borga mikið fyrir stór erlend atriði. Það hafi þó ekki alveg stoppað menn í að fá erlenda listamenn síðustu ár og nefnir hann að Blond Redhead frá New York hafi komið á hátiðina sem og Gruff Rhys úr Super furry animals.

Segist Kristján alveg til í að fá Busta Rhymes á hátíðina. „Það er aldrei að vita nema maður sendi til baka póst og spyrji hvort hann sé til í að koma í kalda skemmu og spila á Ísafirði þar sem plokkfiskur og góð stemmning sé í boði,“ segir Kristján á léttu nótunum og bætir við: „Það er aldrei að vita nema hann slái til.“ Kristján segir einnig að það yrði örugglega með betri köflunum í ævisögu tónlistarmannsins að mæta vestur á firði og halda tónleika í veiðafærageymslu.

Busta Rhymes hefur áður komið til Íslands, en árið 2011 hélt hann tónleika í Vodafone-höllinni og í fyrra kom hann fram á Secret solstice-hátíðinni í Laugardal. Var hann leynigestur hátíðarinnar.

mbl.is