Tónlistarmenn sem kvöddu á árinu

David Bowie í París árið 2002.
David Bowie í París árið 2002. AFP

Margir kunnir erlendir tónlistarmenn fóru yfir móðuna miklu árið 2016, þar á meðal David Bowie, Prince, Leonard Cohen og nú síðast George Michael. mbl.is tók saman lista yfir þá þekktustu sem hafa kvatt okkur á árinu.

David Bowie - 10.janúar

 

Árið hófst með óvæntum tíðindum af dauðsfalli enska tónlistarmannsins Davids Bowie, aðeins tveimur dögum eftir að 25. platan hans kom út. Bowie hafði barist við krabbamein í 18 mánuði en enginn virtist hafa vitað af því nema hans allra nánustu ættingjar og samstarfsfólk. Hann var 69 ára þegar hann lést.  Skilur hann eftir sig ógrynni vinsælla laga af ýmsum toga sem munu lifa áfram í hjörtum tónlistarunnenda.

Glenn Frey - 17.janúar

 

Einn af stofnendum bandarísku hljómsveitarinnar Eagles lést, 67 ára gamall, eftir veikindi sem fylgdu í kjölfarið á gigt, ristilvandamálum og lungnabólgu sem gítarleikarinn þáðist af. Frey var meðhöfundur nokkurra af þekktustu laga Eagles á borð við Desperado og Hotel California.

Paul Kantner - 28. janúar

 

Einn af stofnendum bandarísku sveitarinnar Jefferson Airplane, sem gerði garðinn frægan á sjöunda áratugnum, lést 74 ára gamall. Hann hafði átt við heilsufarsvandamál að stríða í töluverðan tíma og fékk hjartaáfall árið 2015. Kantner átti þátt í að skapa „San Francisco-hljóminn“ með lögum á borð við White Rabbit og Somebody to Love.

Maurice White - 4. febrúar

 

White, sem var einn af stofnendum Earth, Wind & Fire lést 74 ára gamall eftir langa baráttu við Parkinson-sjúkdóminn. White var söngvari, trommari og upptökustjóri hljómsveitarinnar, ásamt því að vera aðallagahöfundurinn. Hann seldi, ásamt bræðrum sínum Verdine og Fred, meira en 90 milljónir hljómplatna, hlaut sjö Grammy-verðlaun og sess í Frægðarhöll rokksins.

George Martin - 8. mars

 

Oft nefndur sem fimmti Bítillinn. George Martin var upptökustjóri Bítlanna og átti hann stóran þátt í að skapa hljóm þeirra. Hann kom með tillögur að strengjaútsetningum og spilaði einnig á plötur þeirra þegar það átti við, þar á meðal píanósóló í laginu In My Life. Hann var níræður þegar hann lést.

Merle Haggard - 6. apríl

 

Goðsögn í kántrítónlistinni sem kvaddi okkur á 79 ára afmælisdegi sínum af völdum lungnabólgu. Haggard átti meira en 35 topplög á ferli sínum og rúmlega 70 á topp tíu á sveitasöngvalistum. Á meðal þekktustu laga hans eru Okie From Muskogee og Workin´Man Blues.

Prince - 21. apríl

 

Andlát bandaríska tónlistarmannsins Prince kom almenningi í opna skjöldu í vor. Hann var 57 ára þegar hann lést á heimili sínu í Minnesota eftir að hafa tekið inn of stóran skammt ópíumskyldra lyfja. Prince hlaut sjö Grammy-­verðlaun á ferlinum, auk þess sem hann hlaut hlaut Óskarsverðlaun árið 1985 fyrir lag sitt Purple Rain. Á meðal annarra þekktra laga hans voru Girls & Boys og Kiss.

Papa Wemba - 24. apríl

 

Einn þekktasti tónlistarmaður Afríku lést eftir að hafa hnigið niður á tónlistarhátíð á Fílabeinsströndinni. Hann var þekktur undir nafninu „konungur kongósku rúmbútónlistarinnar“ fyrir að eiga þátt í að koma tónlistarstefnunni á kortið.

Leonard Cohen - 7. nóvember

 

Kanadíska ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn lést í svefni, 82 ára að aldri, eftir að hafa fallið á heimili sínu í Los Angeles. Cohen var þekktastur fyrir lög á borð við Suzanne og Hallelujah. Fjölmargir listamenn hafa flutt síðarnefnda lagið síðan það kom út á plötunni Various Positions árið 1984. Fjórtánda plata Cohen, You Want It Darker, kom út mánuði áður en hann lést.

Leon Russell - 13. nóvember 

 

Bandaríski tónlistarmaðurinn og lagahöfundurinn féll frá 74 ára gamall. Hann var hluti af hljóðversbandinu Wrecking Crew sem spilaði inn á fjölmargar þekktar plötur. Hann gaf einnig út sólóplötur á ferli sínum. Á meðal samstarfsmanna hans í gegnum tíðina voru Bob Dylan, The Rolling Stones, Elton Jones, The Ronnettes, Phil Spector, Ike & Tina Turner og Joe Cocker. Russell var vígður inn í Frægðarhöll rokksins árið 2011.

George Michael - 25. desember

Breski popparinn kvaddi á jóladag, 53 ára gamall, að því er talið af völdum hjartabilunar. Hann sló í gegn með hljómsveitinni Wham! á níunda áratugnum með lögum á borð við Last Christmas og Wake Me Up Before You Go-Go. Hann seldi yfir 100 milljónir hljómplatna á ferli sínum. Á meðal þekktustu laga á farsælum sólóferli voru Faith, Freedom! 90, Fastlove og Jesus To A Child.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ekki hyggilegt að hleypa málum af stað án þess að reyna að sjá framvinduna fyrir. Ekki eyða tímanum í samviskubit yfir því að hafa ekki lagt nóg af mörkum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ekki hyggilegt að hleypa málum af stað án þess að reyna að sjá framvinduna fyrir. Ekki eyða tímanum í samviskubit yfir því að hafa ekki lagt nóg af mörkum.