Að elska vondu (norsku) strákana

Þær Chris, Vilde, Eva, Noora og Sana eru helstu fyrirmyndir …
Þær Chris, Vilde, Eva, Noora og Sana eru helstu fyrirmyndir ungra kvenna á Norðurlöndunum í dag.

Hún kallaði hann klisju. Ein besta vinkona hennar hafði strunsað til hans nokkrum augnablikum fyrr og hent í hann peysu sem sagði öllum skólanum að hann hefði sofið hjá henni. Merkti hana nafni hans með rauðum stöfum. Hann talaði rólega til vinkonunnar í fyrstu, blíðlega, sagði málið misskilning. En svo:

„Ef þú heldur að ég líti á þig sem einhverskonar verðlaunagrip hefurðu rangt fyrir þér. Þú ert ekki nógu góð til þess.“

Þetta lét Noora Amalie Sætre ekki viðgangast. Alveg jafn rólega og William Magnusson hafði niðurlægt Vilde Hellerud Lien sagði hún honum til syndanna.

„Fékkstu aldrei viðurkenningu sem barn eða? Hrósaði mamma þín aldrei teikningunum þínum? Kom pabbi aldrei á skólaslitin?“ spurði hún. „Allavega, þá þarftu að komast yfir það og fara að haga þér eins og manneskja. Hættu að ganga um eins og einhver helvítis klisja.“

Noora lagði dumbrauðar varirnar saman, skaut hökunni upp og valsaði á brott undir taktföstum tónum Kelis.

Með því fæddist femínískt íkon fyrir nýja kynslóð Norðurlandabúa. Noora í norska sjónvarpsþættinum Skam hafði, rétt eins og Nora í Brúðuheimili Ibsens, sýnt styrk sinn og farið án þess að feðraveldið fengi rönd við reist. Í næsta þætti reyndust þó blikur á lofti enda átti Noora sjálf eftir að verða gangandi klisja og það við hlið Williams.

Uppáhaldssamband aðdáenda

Fyrir þá sem ekki þekkja til eru Skam allra vinsælustu unglingaþættirnir á Íslandi í dag. Þrjár seríur hafa litið dagsins ljós og sú fjórða er á leiðinni. Hennar er beðið með mikilli eftirvæntingu en fjölmargir aðdáendur hafa þó lýst yfir vonbrigðum með þá staðreynd að fyrrnefndur William muni ekki sjást í þáttunum að nýju.

Ofangreind samskipti hans við Vilde og Nooru áttu sér nefnilega stað í fyrstu þáttaröðinni en sú næsta var nær alfarið tileinkuð ástarsambandi hans og Nooru þar sem áhorfendur fengu að sjá á honum aðrar hliðar, en þó einnig meira af því sama.

Í óformlegri skoðanakönnun innan Facebook-hópsins Skam-aðdáendur á Íslandi kemur fram að yfir 400 meðlimir kunnu best að meta einmitt þá þáttaröð. Til samanburðar hlaut fyrsta serían 40 atkvæði og þriðja serían tæplega 190. Í annarri skoðanakönnun voru meðlimir spurðir um uppáhaldspar þeirra í þáttunum og þar hafa þau Noora og William um 250 atkvæði fram yfir næsta par.

William er staðalímyndin af „vonda stráknum“, eiginlega alger klisja eins og Noora sagði í upphafi. Hann virðist harður á yfirborðinu en innst inni er hann ljúfur sem lamb og Noora reynir og getur breytt honum til betri vegar. Sagan er hinsvegar aldrei svo einföld, ekki frekar en sambærilegar aðstæður í raunveruleikanum.

Eins og hin sænska Malin Nilsson bendir á í pistil fyrir Nyheter24 beitir William andlegu ofbeldi til að fá sínu framgengt og skilur ekki að nei þýðir nei.

„Ástarsaga Williams og Nooru byggist á því að hann byrjar að hóta henni þegar hún vill ekki fara á stefnumót með honum, skrifar Nilsson. „Ef hún fer á stefnumótið lofar hann að hætta að nota vinkonu hennar, Vilde. Þrátt fyrir að hún segi margoft nei gefst hann ekki upp – og það gerir hann henni ljóst.“

„Fjandi ertu falleg“

Eftir að Noora hafnar William í fyrsta sinn gengur hann á eftir henni með grasið í skónum.

„Þú ert klár stelpa. Þú hlýtur að skilja að í hvert skipti sem þú hafnar mér vil ég þig bara meir og meir,“ segir hann við hana eftir enn eina tilraunina til að fá hana á stefnumót.

„Var það allt?“ spyr hún, og finnst sýnilega lítið til koma. „Nei, eitt í viðbót,“ svarar hann.

„Fjandi ertu falleg.“

Þessu kann Noora ekki að svara og augnablikið markar upphafið að hennar innri baráttu gegn því að falla fyrir William. En hún fellur, rétt eins og svo margar hafa fallið áður í samþema kvikmyndum, sem Nilsson listar, á við The Notebook, 10 things I hate about you og She's all that.

Undanfarin misseri hefur frekar verið einblínt á „Fáðu já,“ en „Nei þýðir nei,“ þegar kemur að því að stemma stigu við nauðgunarmenningu. Í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum hefur baráttan gegn nei-inu hinsvegar oftar en ekki verið sveipuð rómantískum blæ. Í athugasemdum við grein Nilssen segir einn lesandi hana greinilega ekki hafa fylgst nógu vel með þar sem Noora gefur frá sér lúmsk skilaboð sem sýni að hún laðist að William að einhverju leyti.

Slíkur hugsunarháttur, óháð því hver skilaboðin í þáttunum voru, eru einmitt annað einkenni nauðgunarmenningar, réttlætingin „hún vildi þetta“ finnst víða þar sem hún á ekki heima.

Raunsæið að leiðarljósi

Nú má spyrja: Hvers vegna er einmitt þetta samband, sem ekki aðeins virðist klisjukennt heldur einnig eitrað af tilfinningalegum vélabrögðum, það allra vinsælasta meðal aðdáenda.

Svarið leynist í raun hér að ofan. Í gegnum dægurmenningu er okkur öllum – konum, körlum og fólki utan tvíhyggjunnar – kennt frá unga aldri að hegðun Williams sé sérlega rómantísk. Okkur er kennt að hunsa viðvörunarmerkin, trúa því að ef karlmaður er nógu ágengur sé það hið mesta hrós og þess virði að veita athygli. Jafnvel að einstaklingurinn skuldi viðkomandi eitthvað eins og William sagði Nooru gera eftir að hann bað Vilde afsökunar.

Því skal haldið til haga að í þessari þáttaröð er einmitt tekið sterkt á nauðgunarmenningu og hrelliklámi. Með hjálp vinkvenna sinna og sérfræðinga mætir Noora bróður Williams sem reynir að kúga hana með nektarmyndum og kærir hann.

Í Skam er fjallað af innsæi um ýmis málefni svo …
Í Skam er fjallað af innsæi um ýmis málefni svo sem viðbrögð við kynferðisofbeldi, geðsjúkdóma, samkynhneigð og trúarbrögð.

Þar kennir höfundur þáttanna, Julie Andem, og teymi hennar ungu fólki eina leið til að meðhöndla hrelliklám og nauðganir en Skam er þó á engan hátt ætlað að predika. Andem hitti yfir þúsund norsk ungmenni áður en hún valdi leikarana og allt kapp er lagt á að gera þættina sem allra raunverulegasta. Drama skandinavískra unglingsára er eftir allt einfaldlega alveg nóg án þess að bandarískum glamúr eða glæpum sé bætt þar ofan á.

Kannski er það einmitt fyrir sakir raunsæis sem Andem valdi að láta Nooru laðast að William. Það er erfitt að brjótast úr viðjum svo sterkrar félagsmótunar og eins og Mala Wang-Naveen skrifar fyrir Aftenposten þá eiga jafnvel reiðir, sterkir og samfélagsmiðaðir femínistar sín veiklyndu augnablik.

Hvað sem því líður þá er William nú úr sögunni þar sem leikarinn, Thomas Hayes, ákvað að einbeita sér að öðrum verkefnum. Farið hefur fé betra. Noora var varla skugginn af sjálfri sér alla þriðju seríu vegna sambandsslitanna en í fjórðu seríu felast tækifæri til að endurheimta hana og styrkja að nýju.

Í millitíðinni er um að gera að endurskoða seríu tvö með nýjum gleraugum. Ekkert okkar verður reiprennandi sambandssérfræðingur á því að dreyma um sjónvarpspersónur. Með því að skoða þær niður í grunninn getum við hinsvegar kannski lært eitthvað um okkur sjálf og áhrif dægurmenningar á daglegt líf. En svo getum við líka auðvitað haldið áfram að ganga um eins og einhverjar helvítis klisjur.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler