Þetta íslenska er X-faktorinn

Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverki Ragnheiðar í Föngum.Hún er líka …
Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverki Ragnheiðar í Föngum.Hún er líka ein af handritshöfundum og framleiðir þættina ásamt fleirum.

Velgengni sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærðar opnaði dyr fyrir íslensku sjónvarpsefni á alþjóðamarkaði. Sjónvarpsþættirnir Fangar hafa þegar verið seldir til nokkurra landa og alþjóðleg efnisveita, sem streymir sjónvarpsefni, hefur fest kaup á þáttunum. Eftirspurn er eftir óvenjulegu og frumlegu sjónvarpsefni og íslensk þáttaframleiðsla nýtur góðs af velgengni norrænna þátta á borð við dönsku þættina Borgen og sænsk/dönsku þættina Brúin.

„Það er sífellt verið að leita að einhverju nýju, hinu óvænta. X-faktorinn okkar, þetta sem enginn hefur nema við, eru íslensku einkennin. Það eru nógu margir að búa til fjöldaframleitt staðlað efni, við erum ekki að því og við erum ekki að fara að keppa við Hollywood. Núna erum við þetta nýja og ef við framleiðum ekki gott íslenskt efni, þá gerir það enginn,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, en RÚV hefur komið að framleiðslu beggja ofangreindra þátta og fjölmargir fleiri þættir, sem farið gætu á alþjóðamarkað, eru í bígerð.

Skarphéðinn Guðmundsson.
Skarphéðinn Guðmundsson.

Síðasti þátturinn af Föngum var sýndur á RÚV á sunnudagskvöldið, þættirnir fengu mikið lof sem náði út fyrir landsteinana og hefur m.a. verið fjallað um þættina í Variety, sem er eitt helsta tímarit afþreyingariðnaðarins.

Gæðaefni er eftirsótt

Skarphéðinn segir Fanga vera gott dæmi um þá breytingu sem orðið hefur í framleiðslu sjónvarpsefnis á stuttum tíma. „Þó að áhorf á línulega dagskrá hafi minnkað, þá hefur sjónvarpsáhorf líklega aldrei verið meira. Það eru svo margir möguleikar til að horfa á sjónvarp; á netinu, á ýmsum efnisveitum og á sjónvarpsstöðvunum sjálfum. Þetta hefur leitt til aukinnar eftirspurnar eftir vönduðu gæðaefni og það laðar að hæfileikaríkt fólk. Áður var litið niður á sjónvarp, en núna eru nánast allir nafntogaðir kvikmyndagerðarmenn að vinna að sjónvarpsverkefnum.“

Undir þetta tekur Davíð Óskar Ólafsson, framleiðandi og leikstjóri hjá Mystery Production, sem framleiddi Fanga ásamt fleirum. „Við ákváðum snemma í undirbúningsferlinu að setja markið hátt; að búa til þáttaröð sem veitti öðrum þáttum úti í heimi samkeppni. Við gerðum allt vel – myndatakan, hljóðið, leikurinn, tónlistin, sviðsmyndin; þetta er allt eins og best er hægt að gera það,“ segir Davíð.

Davíð Óskar Ólafsson
Davíð Óskar Ólafsson

Fangar verða sýndir víða

Nú þegar hafa Fangar verið seldir til sýninga hjá öllum norrænu stöðvunum og á pólsku stöðina Canal+. Verið er að ganga frá samningum við einkarekna sjónvarpsstöð á Spáni og efnisveita hefur fest kaup á þáttunum. Davíð segir að samkvæmt samningnum sé sér ekki heimilt að gefa upp hvaða efnisveitu sé um að ræða, en um sé að ræða alþjóðlega veitu sem streymir þáttum og kvikmyndum. Á morgun heldur hann á kvikmyndahátíðina í Berlín þar sem þættirnir verða kynntir á svokölluðum sjónvarpsmarkaði. „Það geta verið miklir peningar í þessu,“ svarar hann, spurður um hvort þættirnir séu farnir að raka saman fé, en segir of snemmt að segja til um hvort sú verði raunin með Fanga.

Aðkoma RÚV að framleiðslu Fanga er margþætt að sögn Skarphéðins. „Við erum fyrsti aðilinn sem kemur inn í ferlið, það er lífsnauðsynlegt fyrir framleiðendurna að fá sjónvarpsstöð sem ætlar að sýna þættina inn sem fyrst. Við erum með í vinnslu þáttanna allan tímann og höfum milligöngu um samstarf við norrænu stöðvarnar, sem fyrst og fremst felst í að þær tryggja sér sýningarrétt á þáttunum.“

Skarphéðinn segir það vera til marks um breytta tíma í framleiðslu leikins íslensks sjónvarpsefnis að allar norrænu ríkisstöðvarnar voru meðframleiðendur að Ófærð og Föngum. Það hafi ekki gerst áður. Hann segir að gerðar hafi verið langtímaáætlanir um þáttaraðir af ýmsum lengdum og gerðum. Stefnan sé að geta boðið upp á allt að þrjár þáttaraðir á ári til að geta annað eftirspurn og framundan séu m.a. þáttaraðirnar Líf eftir dauðann eftir Veru Sölvadóttur, sem sýnd verður um páskana og Loforðið eftir Braga Þór Hinriksson og Guðjón Davíð Karlsson sem sýnd verður næsta haust.

Er markvisst verið að horfa til útlanda við framleiðslu þátta á borð við Ófærð og Fanga? „Það er alveg ljóst, að ef efnið á eingöngu að vera sýnt á Íslandi, þá getur það ekki verið eins umfangsmikið. Það þarf þó ekki að þýða að við getum ekki haldið áfram að segja okkar eigin sögur, því þar liggur einmitt áhugi annarra þjóða: á sérkennum okkar,“ svarar Skarphéðinn.

Velgengnin lá í loftinu

„Það er svo margt,“ svarar Davíð spurður um hvaða skýringar hann gefi á velgengni Fanga. „Þetta lá svolítið í loftinu, við áttuðum okkur á að við værum með eitthvað einstakt í höndunum. En það sem er kannski svolítið sérstakt er að sagan er ekki drifin áfram af plotti eins og svo margir þættir, heldur er þetta heildarmynd og það verður að horfa á alla þættina.“

Mega sjónvarpsáhorfendur búast við Föngum 2? „Það stóð ekkert endilega til í upphafi, en við höfum nú þegar tekið upp viðræður við höfunda og framleiðendur um að gera framhald,“ segir Skarphéðinn.

mbl.is
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Freida McFadden
2
Guðrún Frímannsdóttir
4
Bergsveinn Birgisson
5
Liza Marklund

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú gerir þér grein fyrir því í dag hve miklum tökum vaninn hefur náð á þér. Njóttu þess að vera með vinum þínum og fjölskyldu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Freida McFadden
2
Guðrún Frímannsdóttir
4
Bergsveinn Birgisson
5
Liza Marklund

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú gerir þér grein fyrir því í dag hve miklum tökum vaninn hefur náð á þér. Njóttu þess að vera með vinum þínum og fjölskyldu.
Loka