Búið spil hjá Rob og Blac Cyna

Blac Chyna og Rob Kardashian hafa slitið sambandi sínu.
Blac Chyna og Rob Kardashian hafa slitið sambandi sínu. Skjáskot / Instagram

Ekkert lát er á dramatíkinni í kringum Kardashian-fjölskylduna, en fregnir herma að Rob Kardashian og barnsmóðir hans, Blac Chyna, séu skilin skiptum.

Samkvæmt frétt People er nokkuð síðan skötuhjúin slitu sambandi sínu, en þau eiga saman þriggja mánaða dóttur.

„Þau slitu sambandi sínu fyrir svolitlu síðan og eru hætt við brúðkaupið. Þau eru bæði að reyna að takast á við sambandsslitin á þroskaðan máta,“ er haft eftir ónefndum heimildamanni.

Samband Kardashian og Chyna hefur verið afar stormasamt, en þau slitu trúlofun sinni einnig tímabundið á síðasta ári.

Heimildamaður tímaritsins segir jafnframt að barnsmóðir Kardashian sé búin að fá sig fullsadda af hegðun raunveruleikastjörnunnar.

„Chyna er búin að fá nóg af Rob, og telur hann of tilfinningasaman og þunglyndan. Hún telur hann eiga við vandamál að stríða. Hann er óöruggur og ekki í miklu jafnvægi og henni finnst það ekki gott umhverfi fyrir fjölskylduna og dóttur þeirra.“

mbl.is