Brjóstbíti gert að hemja skapið

Azelia Banks.
Azelia Banks.

Dómsátt tókst í vikunni í máli sem dyravörður í næturklúbbi nokkrum vestur í Bandaríkjunum höfðaði á hendur rapparanum Azealia Banks og er niðurstaðan sú að Banks ber að ljúka 26 vikna löngu námskeiði í reiðistjórnun. Klári hún námskeiðið verður ákæran milduð úr líkamsárás í óspektir á almannafæri. Samkvæmt sáttinni þarf Banks að láta dómarann fylgjast grannt með meðferðinni og halda sig þess utan alfarið á mottunni; að öðrum kosti gæti hún átt yfir höfði sér allt að eins árs fangavist.

Banks er grunuð um að hafa gefið dyraverðinum, sem er kona, á kjaftinn og bitið hana í brjóstið. Atvikið átti sér stað á aðventunni 2015.

Azealia Banks, sem er 25 ára, hefur lengi verið eins konar „enfant terrible“ í bandarísku tónlistarlífi og kalla þarlendir rapparar þó ekki allt ömmu sína. Sumum þykir eflaust löngu tímabært að hún fái leiðsögn við að hemja skapsmuni sína.

Á ýmsu hefur gengið hjá Banks á til þess að gera stuttum ferli í sviðsljósinu.

Síðasta haust kærði hún Russell Crowe fyrir ofbeldi í sinn garð eftir að Hollywood-leikarinn henti henni út úr samkvæmi á hótelherbergi hans í Beverly Hills. Málið var hins vegar látið niður falla enda báru vitni að Banks hefði látið dólgslega og hótað að skera mann og annan á háls með glasi sem hún hafði brotið í þeim tilgangi. Crowe skarst þá í leikinn, að sögn vitna, og kom Banks bandóðri fram á gang til að forða gestum frá fjörtjóni. Eftir þá uppákomu lofaði Banks á samfélagsmiðlum að hafa sig framvegis hæga og einbeita sér að tónlistinni.

Hrækti á flugfarþega

Haustið 2015 lenti Banks í útistöðum við farþega og áhöfn flugvélar þegar hún var að flýta sér frá borði í Los Angeles. Að sögn vitna ruddist söngkonan frekjulega framhjá öðrum farþegum og þegar Fransmaður nokkur steig í veg fyrir hana hrækti hún framan í hann, sló hann og reif skyrtuna hans. Þegar flugþjónn blandaði sér í málið skammaði Banks hann víst eins og hund og kallaði meðal annars „hommatitt“.

Ekki urðu eftirmál af þeim viðskiptum en þetta er ekki í eina skiptið sem Banks hefur gerst ber að hatri í garð samkynhneigðra karlmanna, einkum á samfélagsmiðlum.

Banks er einmitt þekkt fyrir að fara mikinn á þeim ágætu miðlum og beita þar ítrekað „orðbeldi“, ef svo má segja. Svo virðist sem henni sé sérstaklega uppsigað við frægt fólk. Makalaus er til dæmis yfirhalningin sem Sarah Palin fékk fyrir tóman misskilning um þetta leyti í fyrra. Banks hvatti þá „hraustustu og svörtustu negra“ til að sýna varaforsetaefninu fyrrverandi í tvo heimana. Hún baðst síðan afsökunar þegar í ljós kom að ummælin sem höfðu farið fyrir brjóstið á Banks, „negrar nutu þess að vera þrælar“, komu alls ekki úr munni Palin, heldur voru þau skálduð upp í satírísku viðtali. Palin íhugaði málsókn en tók afsökunarbeiðnina góða og gilda.

Vill brenna hús

Banks hefur líka hvatt til þess á samfélagsmiðlum að hús allra afkomenda þrælahaldaranna verði brennd til grunna og eignir þeirra gerðar upptækar. „Mér finnst að loka ætti alla hvíta karla inni á geðdeild...í ljósi grimmdarverkanna sem þið berið ábyrgð á í þessum heimi,“ skrifaði hún afkomanda eins þeirra. Þá hefur hún opinberlega hvatt til þess að Bandaríkjamönnum af afrískum uppruna verði greiddar svimháar skaðabætur vegna þrælahaldsins. „Við erum börn fólksins sem kvaldist í nafni núkapítalisma og eigum skilið að fá sneið af helvítis tertunni,“ skrifaði hún einu sinni á Twitter.

Svo virðist sem tónlistarbransinn vestra sé búinn að fá nóg af reiðilestri og ofsaköstum Azealiu Banks. Eftir að hún bar með afar ósmekklegum hætti blak af leikaranum Bill Cosby, sem grunaður er um að hafa nauðgað fjölda kvenna, sagði leikstjórinn Judd Apatow að óhugsandi væri að hlæja lengur að hegðun hennar.

Þá hefur vefsíðan Vulture.com talað um örvæntingarfulla hegðun listamanns sem gerir sér grein fyrir því að ferillinn er á hraðri niðurleið. „Hún fellur hratt og það er ekkert skemmtilegt við þessa sýningu lengur.“

Einmitt það. Mikið mun mæða á reiðitemjaranum!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant