Milljarðamæringur gaf land undir þjóðgarð

Patagónía er syðsti hluti Suður-Ameríku og er það bæði innan ...
Patagónía er syðsti hluti Suður-Ameríku og er það bæði innan landamæra Argentínu og Chile. Svæðið er þekkt sem frábært útivistarsvæði. mynd/Wikipedia

Milljarðamæringurinn Douglas Tompkins hóf að kaupa land í Patagóníu í Chile fyrir um aldarfjórðungi. Í upphafi vöknuðu grunsemdir um að hann væri að kaupa landið til að koma þar fyrir kjarnorkuúrgangi fyrir Bandaríkin og síðar var talað um að hann ætlaði sér að stofna sértrúarsöfnuð á staðnum.

Tompkins, sem er stofnandi útivistarmerkisins The North Face lést í fyrra eftir kajakaslys í Patagóníu, en svæðið var ávallt hans eftirlætis útivistarsvæði að sögn eiginkonu hans. Í þessari viku fór eiginkona hans Kristine McDivitt, sem áður var forstjóri útivistarfyrirtækisins Patagonia, á fund með yfirvöldum í Chile og lét verða af hinstu ósk Tompkins. Gaf hún ríkisstjórn landsins allt landsvæði í Patagóníu sem maður hennar hafði safnað saman með þeirri kröfu að stofnaður verði þjóðgarður á svæðinu. Er þetta stærsta gjöf af þessu tagi í sögunni. Svæðið nemur um 1.650 ferkílómetrum, en það eru um 1,6% af stærð Íslands.

Hefur Tompkins vegna þessa meðal annars verið minnst í fjölmiðlum í Chile sem „græna milljarðamæringsins“.

Þegar Tompkins hóf að kaupa landið á sínum tíma var það ekki án andstöðu heimamanna. Töldu margir að hann væri að nota fjármuni sína til að eignast stóran hluta af þessu svæði sem er mjög afskekkt, en vinsælt útivistarsvæði.

Þrátt fyrir að Tompkins hafi frá upphafi greint frá áætlunum sínum voru ekki allir sem tóku hann trúverðugan, enda var hann Bandaríkjamaður og var talsverð tortryggni hjá íbúum Chile vegna stuðnings Bandaríkjastjórnar við einræðisherrann Augusto Pinochet sem var á þessum tíma nýfarinn frá völdum.

Þrátt fyrir að margir hrósi nú Tompkins fyrir gjöfina eru enn þeir sem telja hann hafa farið illa með landeigendur og greitt þeim svívirðilega lágt verð fyrir jarðirnar á þeim tíma.

Douglas Tompkins í Argentínu árið 2009.
Douglas Tompkins í Argentínu árið 2009. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina