Rétt náði Mamma Mia eftir langt ferðalag

Helgi Björnsson rétt náði til Íslands til þess að sýna ...
Helgi Björnsson rétt náði til Íslands til þess að sýna Mamma Mia í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Allt leit út fyrir að Helgi Björnsson, leikari og söngvari, myndi missa af sýningu á Mamma Mia í Borgarleikhúsinu í kvöld eftir að flugi sem hann átti frá Miami í gær var frestað. Flugvél sem átti að flytja Helga og aðra farþega til Íslands bilaði og því þurfti að fresta fluginu um heilan sólarhring. Hefði Helgi beðið eftir því flugi hefði hann misst af sýningu Mamma Mia sem byrjar kl. 20 í kvöld.

Helgi hefur náð öllum 158 sýningunum til þessa og það kom ekki til greina að það myndi breytast. Þess vegna tók hann á sig rúmlega fimmtán tíma ferðlag þar sem hann keyrði á milli flugvalla í Bandaríkjunum, flaug í níu tíma til Svíþjóðar, beið þar í tvo tíma áður en hann flaug heim til Íslands. Hann lenti í Keflavík rétt fyrir klukkan 16 og var kominn til Reykjavíkur um það leyti sem hann átti að mæta í Borgarleikhúsið.

Helgi er núna mættur í hús og mun stíga á stokk í kvöld sem fyrr. Þegar hafa um 90 þúsund manns séð Mamma Mia í Borgarleikhúsinu, en sýningum á verkinu lýkur í júní.

mbl.is