Cornell framdi sjálfsvíg

Cornell á tónleikum í janúar síðastliðnum.
Cornell á tónleikum í janúar síðastliðnum. AFP

Chris Cornell, söngvari Soundgarden og Audioslave, sem lést í gærkvöldi framdi sjálfsvíg. Þetta kemur fram í tilkynningu frá réttarmeinafræðingi í Wayne County í Michigan.

Samkvæmt tilkynningunni hengdi söngvarinn sig en þar kemur einnig fram að ítarleg krufningarskýrsla sé ekki tilbúin, að því er CNN greindi frá. 

Cornell, sem var 52 ára, lést skömmu eftir að hafa sungið með Soundgarden á tónleikum í Detroit.

Frétt mbl.is: Þögn sló á hljómgarðinn

Vinur fjölskyldu Cornells hringdi í neyðarlínuna, 911, um miðnætti í gærkvöldi eftir að hann ákvað að athuga með Cornell. Hann fannst liggjandi á baðherbergisgólfinu á MGM Grand-hótelinu í Detroit, að sögn Michael Woody, talsmanns lögreglunnar.

Cornell ásamt fjölskyldu sinni í apríl síðastliðnum.
Cornell ásamt fjölskyldu sinni í apríl síðastliðnum. AFP

Sjúkrabíll var sendur á vettvang og var Cornell úrskurðaður látinn á staðnum.

Talsmaður Cornells, Brian Bumbery, sagði við CNN að andlát söngvarans hefði verið „skyndilegt og óvænt“.

AFP
mbl.is