Listamannsferill er eins og vísa

Ragnar Kjartansson í Hafnarhúsi.
Ragnar Kjartansson í Hafnarhúsi. mbl.is/,Hanna Andrésdóttir

Myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson opnar á laugardaginn fyrstu safnsýningu sína hér á landi í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi og ber hún titilinn Guð, hvað mér líður illa. Ekki er þó að sjá að Ragnari líði illa, hann er hinn hressasti þar sem hann situr með blaðamanni í safninu, fjórum dögum fyrir opnun, og drekkur bleksvart kaffi. Allt í kring eru starfsmenn að bisa við að setja upp sýninguna sem verður í öllum sölum safnsins og þarf sjálfur Erró að víkja úr sínu fasta rými fyrir þessum fertuga spútniklistamanni.

Þetta er með viðameiri sýningum sem settar hafa verið upp í safninu og var uppsetningin skammt á veg komin þegar viðtalið átti sér stað. Það var því ekki í boði að ganga með Ragnari um sýninguna en rjúkandi kaffibolli var vel þeginn.

Myndlistarstjarna

Vart þarf að fjölyrða um stöðu Ragnars í hinum alþjóðlega myndlistarheimi. Hann er orðinn einn þekktasti og vinsælasti gjörningalistamaður heims, eins og sjá má af viðamiklum sýningum á verkum hans í nokkrum þekktustu söfnum og galleríum heims undanfarin misseri.

Á listasögulegan mælikvarða hefur Ragnar öðlast frægð á heldur skömmum tíma og til frekari staðfestingar á stöðu hans má nefna að í fyrra birtist löng grein um hann eftir hinn virta, níræða rithöfund og blaðamann Calvin Tomkins í tímaritinu The New Yorker, en Tomkins er líklega þekktastur fyrir skrif sín um listamanninn Marcel Duchamp. Tomkins fylgdi Ragnari um nokkurt skeið á meðan hann stóð að undirbúningi sýningar sinnar í Palais de Tokyo í París, sem var viðamesta einkasýning hans fram að því.

Ragnar þegar hann hlaut útnefningu sem Borgarlistamaður Reykjavíkur í fyrra.
Ragnar þegar hann hlaut útnefningu sem Borgarlistamaður Reykjavíkur í fyrra. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Hefur gerst rosalega hratt“

Fyrir tíu árum sýndi Ragnar myndbandsinnsetninguna „Guð“ í Nýlistasafninu, en verkið var flóknasta myndbandsinnsetning sem Ragnar hafði gert. Í því söng hann í sífellu stutta en hugvekjandi setningu, „Sorgin sigrar hamingjuna“, við undirleik strengjakvartetts, hörpuleikara, blásaratríós og hljómsveitarinnar Flís. Tveimur árum síðar var hann fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum og vakti mikla athygli fyrir sex mánaða langan gjörning sem fólst í því að mála eitt málverk á dag af sömu fyrirsætunni, ungum manni í sundskýlu, við mikla hrifningu gesta.

Núna, aðeins tíu árum eftir sýninguna í Nýlistasafninu, er hann orðinn einn þekktasti myndlistarmaður sinnar kynslóðar og m.a. búinn að halda stóra yfirlitssýningu á verkum sínum í listasöfnunum Barbican í Lundúnum og Hirshhorn í Washington DC. „Þetta hefur í rauninni gerst rosalega hratt,“ segir Ragnar um þessa hraðferð sína upp á myndlistartindinn. En finnst honum þetta jafnvel hafa gerst of hratt? „Ja, ég hef aðeins verið að reyna að hægja á mér. Ég var orðinn dálítið ruglaður og hef aðeins verið að slökkva á vélunum eins og þeir hjá United Silicon,“ svarar Ragnar og hlær.

Tomkins segir í lok greinar sinnar í The New Yorker að vandi Ragnars sé fólginn í því að taka að sér of mörg verkefni, að hlaða of miklu á sig. Ragnar tekur vel í þessi varnaðarorð. „Ég tók mark á þeim orðum, komandi frá einum af sárafáum eftirlifandi vinum Marcel Duchamp, gömlum og vitrum manni,“ segir Ragnar og hlær. „Hann var að fylgjast með mér og þótti þetta fullmikið greinilega. Þetta var dálítið galið tímabil.“

–Heldurðu að þú sért kominn á toppinn, ef hægt er að tala um einhvern topp?

„Nei, nei, nei. Ég er ekki á neinum toppi. Og hvað er toppur í listheiminum?“ spyr Ragnar á móti. Hann reyni að halda sér volgum, ekki of heitum. „Eins og vinur Steve Coogan ráðleggur honum í einhverri bíómynd sem ég sá í flugvél.“

Úr verki Ragnars, Heimsljós – líf og dauði listamanns, frá …
Úr verki Ragnars, Heimsljós – líf og dauði listamanns, frá árinu 2015. Verkið er fjögurra rása vídeóinnsetning sem er að lengd 20 klukkutímar, 45 mínútur og 22 sekúndur. Birt með leyfi listamannsins, Gallerí i8, Reykjavík og Luhring Augustine, New York.

Frelsi til að njóta

Sýningarstjóri Guð, hvað mér líður illa er Markús Þór Andrésson og eru elstu verkin á sýningunni frá árinu 2004. „Þetta er öðruvísi sýning en sú sem var í Barbican og Hirshhorn,“ segir Ragnar. „Það er valið á hana með allt öðrum hætti. Það er önnur tilfinning og annar hluti af verkunum, þó að sum verkin séu þau sömu. Það er einhver þráður í henni sem Markús spinnur upp úr nokkrum grunneinkennum verka minna. Þetta er ekki yfirlitssýning heldur hugleiðing um stöðu listaverka minna til heimsins og listarinnar.“

–Sérðu hvernig sá þráður er ólíkur hinum?

„Já, ég held það. Það er mjög mikið um sviðsetningar, afhjúpanir og hvernig maður lítur á heiminn og söguna. Mér finnst erfitt að setja fingur á það, Markús skrifaði mjög góðan texta um sýninguna sem ég vildi að ég kynni utan að,“ segir Ragnar kíminn en Markús segir m.a. að verk Ragnars afhjúpi að hve miklu leyti við sköpum stöðugt raunveruleikann í kringum okkur og að leikræn nálgun hans minni okkur á ánægjuna sem við megum leyfa okkur að njóta við þá sköpun. Ragnar hafi enda fæðst inn í leikhúsfjölskyldu og noti gjarnan leikræn tilþrif og sviðsetningu í verkum sínum, flakki milli ólíkra listforma og geri t.a.m. málverk að gjörningi og kvikmynd að uppstillingu. Rauði þráðurinn sé alltaf gaumgæfileg athugun á mannlegu eðli, marglaga tilfinningar, félagslegar víddir og hinir mótsagnakenndu þættir sem líf okkar allra samanstendur af.

Frelsistilfinning

Ragnar segir ákveðið frelsi felast í því að setja upp yfirlitssýningar á borð við þær í Barbican og Hirshhorn. „Þegar ég var að gera þessar sýningar í fyrra fannst mér bara eins og þetta væri búið og það er mikið frelsi fólgið í því, pínulítið eins og að lenda í slysi og lifa af, kannski,“ segir hann Ákveðin endurfæðing hafi því átt sér stað. „Það er mjög skrítin tilfinning að vera með svona yfirlitssýningar.“

Ragnar segir að þegar hann líti yfir verk sín sjái hann rökrétta þróun. „Það er svo lógískt hvernig eitt tekur við af öðru og það er alltaf eitthvert lífsviðhorf og hugsun sem er sameiginleg með verkunum. Listamannsferill er bara eins og vísa, setning á eftir setningu. Þú byggir upp næsta verk í samtali við verkið sem var á undan.“

Árið 2014 sýndi Ragnar í Skúrnum, sýningarrými í skúr í …
Árið 2014 sýndi Ragnar í Skúrnum, sýningarrými í skúr í eigu myndlistarmannsins Finns Arnars Arnarsonar. Ragnar málaði þá Bjarna bömmer vin sinn að hlusta á Take it Easy, lag hljómsveitarinnar Eagles, aftur og aftur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rosalegur töffaraskapur

–Þú ert mjög vinsæll myndlistarmaður, hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og aðsóknin að sýningunum þínum hefur verið mjög góð. Af hverju heldurðu að verkin þín höfði svona sterkt til fólks?

„Ég hef eiginlega aldrei þorað að pæla í því af því að mér finnst þetta allt bara vera misskilningur og hef bara gaman af þessu. Ég vann náttúrlega á auglýsingastofu þar sem verið var að pæla í því hvað höfðaði til fólks og myndlistin er svo mikil andstæða þess að vinna á auglýsingastofu. Þú verður alltaf að hugsa gegn því að þjóna markaðnum því um leið og þú ferð að þjóna markaðnum ertu ekki að þjóna myndlistinni,“ svarar Ragnar.

Hann segir það mikla gjöf að hafa fengið að alast upp og starfa í íslenskum myndlistarheimi. „Þar er ekki áhersla lögð á að selja verkin sín. Það er mjög algengt að fólk sinni myndlistinni meðfram öðrum störfum því hér er svo mikill kúltúr fyrir listinni listarinnar vegna og það er mjög sérstakt. Maður áttar sig á því, þegar maður hefur verið mikið í hinum alþjóðlega listheimi, hvað senan er frábær hérna og mikil andagift sem fylgir því að vera innan um listamenn sem eru ekki örvæntingarfullir í leit að athygli. Það er rosalegur töffaraskapur í gangi í senunni hérna,“ segir Ragnar. Hann hafi lært mikið af því að starfa í auglýsingageiranum, m.a. að eiga í samstarfi við fólk úr ólíkum greinum, en slík samvinna hefur einkennt verk Ragnars og þá sérstaklega við tónlistarmenn.

Ragnar segir auglýsingastarfið m.a. hafa þjálfað hann í hugmynda- eða steypuvinnu við að ljúga upp einhverju fögru eða spennandi um vöru eða þjónustu sem manni finnist í hjarta sínu óáhugaverð. „Það var eitthvað mjög heimshryggðarlegt og níhílískt við það,“ segir hann. Í myndlistinni verði hins vegar að leita innblásturs í innri sannleika og grunntónninn sé því allt annar. „Það verður að vera einhver innri sannleikur hjá þér. Þú getur ekki verið að gera eitthvað fyrir einhvern annan.“

Ragnar hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2013. Hér sést hann með …
Ragnar hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2013. Hér sést hann með þáverandi forseta lýðveldisins, Ólafi Ragnari Grímssyni, sem afhenti honum verðlaunin, og þáverandi unnustu sinni og nú eiginkonu, Ingibjörgu Sigurjónsdóttur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki leikhús

Talið berst að gjörningum, því listformi sem Ragnar er hvað þekktastur fyrir. Gjörningar hans hafa einkennst af endurtekningum (sem oft á tíðum minna á trúarlegar athafnir), upphafinni fegurð, yfirkeyrðri dramatík, rómantík og melankólíu með margs konar vísunum í listasöguna og sígild listaverk. Ragnar segir gjörninga sína alls ekki leikhús, þótt þeir séu vissulega leikhúslegir. „Þó að ég geri verk í leikhúsi lít ég ekki á mig sem leikhúsmann,“ segir hann.

–Fólk á líklega auðvelt með að tengja við verkin þín því það kannast við svo margt í þeim, ákveðna tilfinningu sem þú vilt koma til skila eða stemningu. Það kannast við fagurfræðina og tenginguna við málverkið sem er líka í leikhúsinu, í rauninni, og í kvikmyndum. Það eru svo margar vísanir í verkunum og fólk kannast líka við margt úr eigin lífi ...

„Já, mér finnst svo gaman að vinna með klisjur og minni. Það er t.d. eitt verk á sýningunni sem ég gerði í samstarfi við Magnús Sigurðarson myndlistarmann sem er eiginlega lærifaðir minn,“ segir Ragnar. Vverk Magnúsar fjalli að miklu leyti um meðalmennskuna og að vera misheppnaður. „Hann kveikti myndmál í hausnum á mér sem ég hef unnið mjög mikið upp úr og því finnst mér ákaflega skemmtilegt að verk sem við unnum saman sé hérna á sýningunni,“ segir Ragnar og á þar við verkið „Trúnað“ frá árinu 2004 sem samanstendur af ljósmyndum af listamönnunum nöktum í faðmlögum og vídeóverki. „Við drukkum okkur fulla, fórum inn í leikmynd þar sem við vorum ræningjarnir á krossinum og fórum á trúnó,“ segir Ragnar um vídeóverkið. Trúnaðarsamtalið hafi verið dæmigert „fyllirís-trúnó“ í biblíusögulegri leikmynd þar sem voru ræningjar á krossinum með Jesú á milli sín. Klisja í leikrænum búningi.

Ragnar sýndi í Hafnarborg árið 2010 málverkin sem hann málaði …
Ragnar sýndi í Hafnarborg árið 2010 málverkin sem hann málaði á sýningu sinni á Feneyjatvíæringnum ári fyrr. Ragnar málaði eitt verk á dag af ungum manni á sundskýlu sem reykti og drakk bjór. Hér sést Ragnar í Hafnarborg innan um nokkur málverkanna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Glöggt er gests augað

Ragnar segir að mörg verkanna á sýningunni í Hafnarhúsi hafi hann unnið upp úr menningarhefð.

„Það er nokkuð sem ég hef frá Birgi Andréssyni og líka Roni Horn. Hún fjallar svo mikið um íslenska menningu á einstaklega djúpan og hugvíkkandi hátt. Hún kom frá Brooklyn til Íslands og fann bara Ísland. Hún er svo gott dæmi um að glöggt er gests augað og ég hef t.d. unnið með bandaríska menningu, þýska ljóðahefð, Ísrael og Palestínu og aðra hluti sem eru ekki mín menning, samkvæmt einhverri menningarlegri eða landfræðilegri skilgreiningu en eru hluti af raunveruleika mínum,“ segir Ragnar og á þar við verkið „Byggingalist og siðferði“, röð málverka sem hann málaði af húsum í landtökubyggð Ísraela á Vesturbakkanum og sýndi í safni í Tel Aviv. –Talandi um þetta tiltekna verk sem þú sýndir í Ísrael, ertu að verða pólitískari í listsköpun þinni?

„Ég held ég hafi alltaf verið pólitískur. List er alltaf pólitísk og fagurfræðileg afstaða er alltaf pólitísk. Þú getur ekki gert áhugavert listaverk án þess að það sé einhver pólitísk yfirlýsing um heiminn í kringum þig,“ svarar Ragnar. „Og þetta verk reynir að horfast í augu við það og öll þau dularfullu tabú sem því fylgir. Mér finnst það áhugaverður staður.“

Ragnar Kjartansson og Magnús Sigurðarson á ljósmynd sem er hluti …
Ragnar Kjartansson og Magnús Sigurðarson á ljósmynd sem er hluti af verki þeirra Trúnaður frá árinu 2004. Jim Smart

Leið ógeðslega illa

–Þessi sýningartitill, Guð, hvað mér líður illa, pælingin með honum hefur væntanlega verið að taka saman allt sem þú hefur gert? Það eru trúarleg stef í endurtekningunni, ákveðin helgiathöfn og svo ertu með þessa yfirkeyrðu dramatík sem er oft lítil innistæða fyrir og þar kemur húmorinn inn í myndina ...

„Einmitt, það er engin innistæða og líka innistæða. Og „Guð, hvað mér líður illa“ er eitthvað sem þú getur sagt mjög alvarlega eða heyrir t.d. einhvern segja sem er skelþunnur,“ segir Ragnar og hlær. Hann segir teikningu sem hann gerði árið 2006 kveikjuna að titlinum. „Mér leið ógeðslega illa þannig að titillinn kemur úr algjörlega sannri tilfinningu. Mér leið hræðilega og það eina sem ég gat gert var að teikna þessi orð á blað.“

–Þessi endurtekning sem einkennir svo mörg verka þinna, er hún kannski líka sprottin af einhverri löngun hjá þér í að vilja ekki sleppa takinu af ákveðnum augnablikum, að vilja að þau vari að eilífu?

„Já, ég held það, það er líklega rétt hjá þér. Þessi stóru augnablik sem þú vilt að endist að eilífu.“

–Er þetta þá líka ótti við að tíminn haldi áfram að loknu því augnabliki?

„Já, ég held það líka. Um leið og þú reynir að frysta tímann tekst þér það náttúrlega alls ekki. Endurtekningin er einhvers konar tilraun til þess að frysta tímann en það tekst ekki. Það er svo mikið „memento mori“,“ svarar Ragnar. „Það er rosalegur ótti í þessu öllu saman og hann er kveikja að mjög mörgu. Ótti og þessi þýska rómantík og „weltschmerz“ Goethe eru stef í þessum verkum.“

Ragnar í ógnarstuði með hljómsveit sinni Trabant á Hlustendaverðlaunum FM957 …
Ragnar í ógnarstuði með hljómsveit sinni Trabant á Hlustendaverðlaunum FM957 árið 2007. Hljómsveitin hlaut verðlaun þetta kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Risavaxið „Gesamtkunstwerk“

Ragnar segir þýskan og bandarískan kúltúr hafa haft mikil áhrif á listsköpun sína. „Það eru rosalega stórir þættir í þessu. Svo er grunnstefið í þessu öllu saman þessi íslenska þörf fyrir að segja sögu, að sagan af listaverkinu skipti meira máli en listaverkið sjálft. Þegar Dieter Roth kom hingað með flúxus small eitthvað í íslenskum listheimi því það passaði svo vel inn í arfinn okkar. En ég hef mjög lítið unnið með íslenska menningu, þannig séð, nema náttúrlega í Heimsljósi,“ segir Ragnar og kemur þar að mikilvægu verki á sýningunni, „Heimsljósi – lífi og dauða listamanns“, frá árinu 2015. Þar er á ferðinni fjögurra rása vídeóinnsetning sem unnin var úr rúmlega tuttugu klukkutímum af skrásetningu tilraunar til að skapa fegurð. „Að baki er löngun til þess að búa til kvikmynd byggða á skáldsögu Nóbelskáldsins Halldórs Laxness,“ segir um verkið í tilkynningu, en bakgrunnur sviðsmyndarinnar er málaður, lifandi tónlist flutt á staðnum og leikurinn í höndum Ragnars og félaga hans. Verkinu er lýst sem risavöxnu „Gesamtkunstwerk“ sem sameini lykilþætti í listsköpun Ragnars. „Svo gerðum við Kjartan Sveinsson tónskáld líka óperu upp úr Heimsljósi þannig að þetta er verk sem er mér mjög hugleikið,“ bætir Ragnar við.

–Þarna ertu farinn að gera mun lengra verk, verk sem er ekki bara langt út af endurtekningunni?

„Já, ég set frásögn inn í þetta en hún er stöðugt brotin og trufluð með endalausum endurtekningum, sum atriðin eru kannski tekin upp níu sinnum, aftur og aftur. Þú kemst aldrei inn í frásögnina við að sjá verkið, bara tilfinninguna fyrir fegurðarþrá og stöðugum ósigri okkar við að fanga hana.“

Stúka Hitlers, verk eftir Ragnar frá árinu 2006, niðurrifin leikhússtúka …
Stúka Hitlers, verk eftir Ragnar frá árinu 2006, niðurrifin leikhússtúka og áletraður marmaraskjöldur. Saga þessa verks er merkileg. Við endurnýjun Admirals Palast leikhússins í Berlín, snemma á 21. öld, var rifin niður einkastúka sem smíðuð hafði verið árið 1941 fyrir Hitler, svokölluð „Führerloge“. Endursmíði leikhússins var í höndum nýrra eigenda og rekstraraðila og þeirra á meðal var tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson. Ragnar hafði veður af þessu og textinn á marmaraskildinum lýsir því sem gerðist: „Ég hringdi í Helga Björns, hann útvegaði mér stúku Hitlers“. Þungu og merkingarhlöðnu efni úr heimssögunni er hér hrúgað á gólf og fengið hlutverk í nýrri og öllu léttvægari frásögn. Birt með leyfi Listasafns Íslands



Sigrast á hlutgervingunni

Þrír lifandi gjörningar verða fluttir á meðan á sýningunni stendur en Listasafn Reykjavíkur auglýsti í apríl sl. eftir fólki sem vildi taka þátt í þeim. Eru það gjörningurinn „Til tónlistarinnar“ sem fluttur verður daglega frá fyrsta sýningardegi til 11. júní, „Kona í e-moll“ sem fluttur verður daglega frá 17. júní til 3. september og „Taktu mig hérna við uppþvottavélina – minnisvarði um hjónaband“ sem fluttur verður daglega 9.-24. september.

Í þeim sem fyrst var nefndur munu píanóleikarar leika undir ljóðasöng Schuberts, An die Musik; fyrir „Konu í e-moll“ var leitað tónlistarkvenna með sterka útgeislun og sjálfstraust til að standa einar á sviði og með lágmarkskunnáttu á gítar og fyrir þann síðastnefnda var leitað karlkyns gítarleikara með nægt sjálfstraust til að koma fram í mikilli nánd við áhorfendur og þurftu þeir að eiga gítar og hafa burði til að læra og flytja raddaðan söng og gítarleik.

Ragnar er spurður að því hvort honum þyki ekki skemmtilegt að sjá nýtt fólk spreyta sig á þessum gjörningum. „Það er rosagaman og það er alltaf ný vídd í verkinu því hver og einn tekur sinn hlut og gerir sitt úr honum,“ svarar hann.

Í „Konu í e-moll“ stendur kona á gylltum snúningspalli með glittjald í kringum sig og leikur e-moll á rafmagnsgítar. Gítarar koma oft við sögu í verkum Ragnars og segir hann rafmagnsgítarinn endurspegla aðdáun hans á bandarískum kúltúr. „Þetta var vopn frelsis og djöfulgangs,“ segir hann um hljóðfærið og að verkið tengist femínískri myndlist og hlutgervingu kvenna. „Þetta er hugleiðing um styrk, vald og angurværð og auðvitað hlutgervingu. Að virðast svona hrikalega hlutgerð en sigrast um leið á hlutgervingunni.“

Myndbandsinnsetning Ragnars Kjartanssonar, The Visitors, var sýnd í Kling & …
Myndbandsinnsetning Ragnars Kjartanssonar, The Visitors, var sýnd í Kling & Bang galleríinu árið 2013 en það er eitt þekktasta og dáðasta verk Ragnars. Hér sjást gestir á sýningunni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Verk sem fáir sáu

–Hvert heldurðu að hafi verið stóra tækifærið á ferlinum? Var það Feneyjatvíæringurinn 2009, kom hann þér endanlega á myndlistarstjörnukortið?

„Veistu, maður verður að passa sig á að pæla ekki of mikið í þessu. En jú, árið 2005, þegar ég var með gjörning undir Eyjafjöllum sem hét „Ókyrrðin mikla“, á Listahátíð í Reykjavík. Ég breytti þá gömlu samkomuhúsi í innsetningu og söng og spilaði blús í mánuð. Það sá varla nokkur maður það verk en það varð að hálfgerðri goðsögn. Einhvern veginn komst þetta inn í einhverja alþjóðlega listumræðu. Þessi sýning og verkið sem ég sýndi í Bard hrintu miklu af stað,“ segir Ragnar.

Sýningarstjóri Guð, hvað mér líður illa, Markús Þór, nam sýningarstjórn við Center for Curatorial Studies við Bard-háskóla í New York-ríki og var útskriftarsýning hans árið 2007 á verkum eftir Ragnar og Roni Horn. Ragnar flutti þar gjörninginn „Folksong“, lék tvo hljóma á rafmagnsgítar í sex klukkustundir á dag en meðal þeirra sem sáu þann gjörning var Roland Augustine, annar eigenda hins virta myndlistargallerís Luhring Augustine í New York.

Úr varð að Markús Þór og Ragnar stýrðu sýningu á verkum íslenskra myndlistarmanna í galleríinu og var Ragnar þeirra á meðal með verkið „Guð“. Í kjölfarið hófst samstarf hans við galleríið.

Ragnar er ávallt smekklegur til fara, jafnvel þó hann sé …
Ragnar er ávallt smekklegur til fara, jafnvel þó hann sé við málarartrönurnar með pensil í hendi. Einar Falur Ingólfsson

Ekki markmið að gera skemmtilega myndlist

Talið berst að lokum að skemmtigildi verka Ragnars, sem svarar því til að það sé ekki eitt af markmiðum hans að búa til skemmtilega myndlist.

„Því leiðinlegri sem myndlist er, þeim mun skemmtilegri finnst mér hún,“ segir hann og dregur í sig reyk úr ímyndaðri sígarettu. „Ég hef ekkert gaman af sniðugri myndlist, þó ég geri dálítið sniðuga myndlist en það er mér náttúrulegt að búa til svona stöff því ég er alinn upp í leikhúsi og allt það,“ útskýrir hann og bætir við: „Skemmtilegt eða leiðinlegt er eiginlega afstætt, órelevant. Þegar listaverk eru góð eru þau bara svo djúpt kikk!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson