„Með gleði og stolti“

Garðar Cortes hlaut í kvöld heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands fyrir ævistarf ...
Garðar Cortes hlaut í kvöld heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands fyrir ævistarf sitt í þágu sviðslista á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég tek við þessari viðurkenningu með gleði og stolti fyrir hönd allra sem stóðu að stofnun, tilurð og rekstri Íslensku óperunnar, og sungu sig inn í hjörtu og vitund heillar þjóðar,“ segir Garðar Cortes sem í kvöld hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands fyrir ævistarf sitt í þágu sviðslista á Íslandi. Í samtali við Morgunblaðið segist Garðar líta svo á að hann sé fulltrúi alls þess gæfufólks sem með honum kom að stofnun Íslensku óperunnar (ÍÓ) á sínum tíma. 

Garðar hefur komið víða við í tónlistarlífi Íslendinga. Hann lauk einsöngvara- og söngkennaraprófum frá The Royal Academy of Music og Trinity College of Music London í Englandi 1968 og 1969, en aðalkennari hans var Joyce Herman Allen. Hann fylgdi því námi eftir með söngnámi hjá Linu Pagliughi á Ítalíu og Helene Karusso í Vínarborg.

Árið 1973 stofnaði hann Söngskólann í Reykjavík og hefur verið skólastjóri hans frá upphafi. Árið 1978 var Íslenska óperan stofnuð að frumkvæði Garðars með það að markmiði að gefa söngvurum tækifæri til að vinna að list sinni og gera óperulistformið aðgengilegt fyrir íslenska áheyrendur. Garðar var óperustjóri fyrstu tvo áratugina og sinnti hljómsveitarstjórn ásamt því að syngja á annan tug hlutverka á sviði. Garðar hefur í gegnum tíðina hlotið fjölda viðurkenninga fyrir frumkvæði sitt og störf að tónlistarmálum og var t.a.m. fyrstur til að hljóta Bjartsýnisverðlaun Bröste árið 1981 fyrir stofnun ÍÓ.

Lánsamur að vinna með Ólöfu 

Garðar gengst fúslega við því að hafa á ferli sínum verið bjartsýnn. „Þessa ofurbjartsýni mætti líka túlka sem einfeldni eða sjálfsblekkingu, því það kemst kraftaverki næst að hafa komið hlutum í framkvæmd og fengið allt þetta ótrúlega fólk til liðs við mig,“ segir Garðar og rifjar upp að hann hafi þegar hann var óperustjóri ekki hikað við að hringja beint í það tónlistarfólk erlendis sem hann langaði að vinna með.

„Bjartsýni mín var þvílík að ef mig langaði í frægan mann þá bara hringdi ég í hann þó ég gæti ekki boðið laun í líkingu við það sem þekktist erlendis. Ég passaði ávallt upp á að við fengjum fólk til samstarfs sem kunni til verka. Þegar ég stofnaði Óperuna hringdi ég í Covent Garden og bað óperustjórann að senda mér færan æfinga- og hljómsveitarstjóra sem leiddi til þess að Robin Stapleton kom hingað og varð okkar dýrmætasti tengiliður við óperuheiminn því hann bjó yfir mikilli reynslu og var einn besti hljómsveitarstjóri sem fyrirfannst,“ segir Garðar og tekur fram að hann hafi lært mjög mikið af Stapleton. 

Að sögn Garðars hefur hann verið einstaklega lánsamur með samstarfsfólk í gegnum tíðina. Nefnir hann í því samhengi að Ásrún Davíðsdóttir, aðstoðarskólastjóri, og Soffía H. Bjarnleifsdóttir, gjaldkeri, hafi starfað við Sönskóla Reykjavíkur frá upphafi. „Ég verð líka að nefna Ólu [Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur],“ segir Garðar, en þau Ólöf hafa margsinnis sungið saman á óperusviðinu og hún starfar sem yfirkennari Söngskólans í Reykjavík. 

„Mín gæfa var að fá að vinna með Ólu, því hún hefði hæglega getað farið út í heim að syngja þar sem henni buðust hlutverk.“ Garðar rifjar upp ánægjulegt og gjöfult samstarf við fjölda leikstjóra á ferlinum, en þeirra á meðal er John Copley. „Bríet Héðinsdóttir var frábær og Þórhildur Þorleifsdóttir reyndist okkur best.“

mbl.is