„Bæði hrærð og glöð“

Guðrún tekur á móti viðurkenningunni úr höndum borgarstjóra.
Guðrún tekur á móti viðurkenningunni úr höndum borgarstjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er auðvitað bæði hrærð og glöð yfir þessari miklu viðurkenningu sem Menningar- og ferðamálaráð borgarinnar er að heiðra mig með. Það er nú einu sinni þannig að þegar maður hefur verið að vanda sig við það sem maður er að fást við þá er alltaf ósköp gaman að fá smá klapp á öxlina,“ segir Guðrún Helgadóttir rithöfundur sem fyrr í dag var útnefnd Borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2017. 

Guðrún er góðkunn flestum landsmönnum fyrir barnabækur sínar sem hafa notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina. Þar ber helst að nefna þríleikina Jón Odd og Jón Bjarna og Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni auk fjölda annarra barnabóka. Þá hefur hún einnig skrifað leikritið Óvita og skáldsöguna Oddaflug sem bæði hafa slegið í gegn.
Í tilkynningu frá borginni kemur fram að að útnefningin sé heiðursviðurkenning til listamanns sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi. Guðrún er því vel að titlinum komin.

Frá athöfninni.
Frá athöfninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skemmtilegast að skrifa

Auk heiðursskjals er borgarlistamanninum veittur ágrafinn steinn auk viðurkenningarfjár. Guðrún segist alltaf hafa reynt að fara vel með peninga og því geti hún eflaust gert eitthvað fallegt með þeim. Auk þess gefi þetta henni líka visst frelsi til að vinna að því sem henni finnst skemmtilegast að gera, sem sé náttúrlega að skrifa.

Blaðamaður hefur orð á því að það hafi nú ekki komið neitt út eftir hana í svolítinn tíma og spyr hvort eitthvað sé á leiðinni. Við því segir Guðrún að því meira sem hún fái af viðurkenningum og heiðri verði hún taugatrekktari við að senda eitthvað frá sér sem sé kannski lélegra heldur en það sem hún hefur sent frá sér áður. Meðal verðlauna sem Guðrún hefur hlotið í gegnum tíðina eru Bókaverðlaun barnanna, Norrænu barnabókaverðlaunin og Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.

„Ég skal ekki segja, mér er nú alltaf illa við að lofa einhverju því ég veit aldrei hvernig vinnunni vindur fram. En ég var nú kannski með dagdrauma um að ég væri að ljúka einhverju fyrir haustið,“ segir Guðrún að lokum.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Helgadóttir rithöfundur og borgarlistamaður ásamt ...
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Helgadóttir rithöfundur og borgarlistamaður ásamt Elsu Hrafnhildi Yeoman formanni menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg
mbl.is